Dagsetning                       Tilvísun
29. ágúst 1997                            694/95

 

Virðisaukaskattur – föst starfsstöð – erlent fyrirtæki

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. apríl 1995, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts æi tengslum við skráða starfsstöð erlends aðila hér á landi.

Í bréfinu kemur fram að erlent hugbúnaðarfyrirtæki hafi sett upp starfsstöð hérlendis með einum launuðum starfsmanni í þeim tilgangi að bæta þjóustu við viðskiptavini sína og auka sölu hér á landi.

Í bréfinu segir m.a.:

“Auk launa starfsmannsins fellur til kostnaður vegna leigu húsnæðis og húsbúnaðar og vegna almenns skrifstofu- og sölukostnaðar. Kostnaðurinn er allur greiddur beint að utan. Þegar fram í sækir er gert ráð fyrir því að hluti af vinnu starfsmannsins verði útskuldaður á viðskiptavini í nafni skrásettrar starfsstöðvar hins erlenda fyrirtækis.”

Jafnframt eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:

  1. Miðað við þær forsendur sem hér hefur verið lýst er skráning starfsstöðvarinnar inn á virðisaukaskattsskrá réttmæt?
  2. Er unnt við mat á skráningarskyldu að horfa til starfsemi hins erlenda félags hér á landi sem einnar heildar, þar sem um er ræða einn og sama aðilann, þrátt fyrir að ferill útskatts og innskatts sé aðskilinn?
  3. Ef svarið við 1 er neikvætt er þá heimilt að endurgreiða hinu erlenda fyrirtæki þann innskatt sem það innir af hendi vegna þjónustu sinnar hér á landi?

Til svars erindinu skal tekið fram að ekki verður talið að hið erlenda fyrirtæki reki fasta starfsstöð hér á landi þar sem starfsstöðin er eingöngu notuð til að annast undirbúnings- eða aðstoðarstarfsemi fyrir hið erlenda fyrirtæki, sbr. e. liður 4. mgr. 5. gr. tvísköttunarsamnings við Bretland. Jafnframt skal þess getið að hið erlenda fyrirtæki er ekki skattsskylt skv. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og bar því ekki að tilkynna sig inn á virðisaukaskattsskrá enda selur það ekki hér á landi vöru eða skattskylda þjónustu.

Ekki verður talið að hægt sé að meta innflutning frá hinu erlenda fyrirtæki sem starfsemi hér á landi þannig að ekki er mögulegt að meta innflutning fyrirtækisins hingað til lands sem hluta af rekstri umræddrar starfsstöðvar.

Aftur á móti geta erlend fyrirtæki fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar, sbr. reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Bent skal sérstaklega á ákvæði 7. gr. umræddrar reglugerðar en þar er erlendum aðila heimilt að fela umboðsmanni sínum hér á landi að sækja um og taka við endurgreiðslu, enda leggi umboðsmaðurinn fram skriflegt umboð þar um.

Að lokum skal þess getið að þegar og ef einhverjar breytingar verða á rekstri umræddrar starfsstöðvar, þ.e. seld er vara eða skattskyld þjónusta, þá ber hinum erlenda aðila að tilkynna sig inn á virðisaukaskattskrá enda verði slík starfsemi rekin í atvinnuskyni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga,

Beðist er velvirðingar á þeirri töf er orðið hefur á því að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir

 

Hjálagt: Reglugerð nr. 288/1995
Endurgreiðslubeiðni RSK 10.29
Umboð vegna endurgreiðslu, RSK 10.36