Dagsetning                       Tilvísun
28. sept. 1995                            699/95

 

Virðisaukaskattur – framlag ríkis og sveitarfélaga til reksturs hlutafélags.

Ríkisskattstjóri hefur, dags. 22. september sl., móttekið bréf yðar, þar sem ráðuneytið óskar eftir umsögn embættisins varðandi innheimtu virðisaukaskatts af framlagi ríkis og sveitarfélaga til vaktstöðvar vegna neyðarsímsvörunar.

Í bréfi frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu dags. 23. ágúst sl. er fjallað um málið og meðfylgjandi bréfinu eru ýmis gögn varðandi málið s.s. drög að samningi um rekstur stöðvarinnar.

Af gögnum málsins má ráða að í bígerð sé stofnun hlutafélags um reksturinn og virðist sú þjónusta sem félaginu ber að veita samkvæmt þjónustusamningi vera sambærileg þeirri neyðarþjónustu sem ríki, ríkisstofnanir og sveitarfélög veittu áður. Enn fremur verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að væntanlegt félag muni selja ríki og sveitarfélögum slíka þjónustu ásamt því að selja öðrum sambærilega þjónustu.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinna eða þjónustu að innheimta og skila virðisaukaskatti í ríkissjóð.

Að áliti ríkisskattstjóra er umrætt félag skattskyldur aðili samkvæmt lögum um virðisaukaskatt á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, enda er um hlutafélag að ræða. Ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna tekur til starfsemi félagsins.

Með hliðsjón af framansögðu telur ríkisskattstjóri að innheimta beri virðisaukaskatt af allri seldri þjónustu félagsins, þ.m.t. af þjónustu afhentri ríki eða sveitarfélögum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.