Dagsetning                       Tilvísun
28. apríl 1992                            401/92

 

Virðisaukaskattur – Frjáls skráning.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. september 1991, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á eftirtöldum atriðum:

1)    Spurt er hvort félag sem undanþegið er tekju- og eignarskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geti sótt um að skrá sig frjálsri skráningu þegar hluti húsnæðis sem hið óskattskylda félag byggir verður leigt virðisaukaskattsskyldum aðila.

Svar: Eins og fram kemur í 4. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign, getur sá sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta fasteignar til virðisaukaskattsskylds aðila fengið frjálsa skráningu vegna útleigunnar. Ef umbjóðandi yðar telst uppfylla bæði skilyrði ákvæðisins og leggur fram þau gögn sem tilgreind eru í 2. mgr. greinarinnar, virðist ekkert því til fyrirstöðu að hann geti fengið frjálsa skráningu.

2)    Spurt er hvort félagið fái sem innskatt virðisaukaskatt af byggingarkostnaði í sama hlutfalli og flatarmál leigða hlutans er af heildaflatarmáli húsnæðisins og ef svo er hvort fá þurfi sérstakan reikning frá byggingarfyrirtæki vegna þess byggingarkostnaðar sem varðar þann hluta húsnæðisins sem hin frjálsa skráning nær til.

Svar: Í 7. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, segir að virðisaukaskattur af byggingu húsnæðis, sem bæði er ætlað til nota fyrir virðisaukaskattsskylda starfsemi og til annarra þarfa, teljist til innskatts í sama hlutfalli og byggingarkostnaður þess hluta húsnæðisins sem byggt er til nota fyrir skattskyldan rekstur er af heildarbyggingarkostnaði fasteignarinnar. Við nýbyggingu er ekki nauðsynlegt að fá sérstakan reikning vegna byggingarkostnaðar þess hluta húsnæðisins sem frjáls skráning tekur til. Innskattinn má finna með því að reikna út hvert hlutfall byggingarkostnaðar þess hluta húsnæðisins sem byggt er til nota fyrir skattskylda starfsemi er af heildarbyggingarkostnaði eignarinnar. Ef gæði húsnæðis, sem nýtt er á mismunandi hátt, eru sambærileg, má miða skiptingu innskatts og ófrádráttarbærs skatts við flatarmál einstakra byggingarhluta, t.d. hæða í húsi.

Athygli skal vakin á því að aðili sem fær frjálsa skráningu vegna útleigu fasteignar má aðeins telja til innskatts þann virðisaukaskatt vegna fasteignarinnar sem fellur til eftir skráninguna, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 577/1989.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.