Dagsetning                       Tilvísun
13. okt. 1992                            430/92

 

Virðisaukaskattur – fyrirlestrar og ráðgjöf um skjalstjórn o.fl.

Með bréfi yðar, dags. 22. sept. sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort yður beri að innheimta virðisaukaskatt af sjálfstæðum atvinnurekstri yðar.

Í bréfinu er starfsemi yðar lýst á eftirfarandi hátt:

„Starfsemi mín hefur síðan færst yfir í að vera nær alfarið leiðbeiningar í skrifstofufræðum, kennsla í öguðum vinnubrögðum og skjalastjórn á skrifstofunni. Lang stærsta verkefni mitt, upptaka Skjalastjórnar hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar fellur t.d. algerlega undir þetta og vinna mín hjá Rauða Krossi Íslands er að færast yfir í þetta form. Hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur held ég þessa dagana fræðslu- og endurmenntunarfundi um þessi mál og er að skrifa kennslubók í skjalastjórnun.

Ég er að taka nýjan aðila í viðskipti Hjálparstofnun kirkjunnar. Sú vinna er fræðsla um betri vinnubrögð á skrifstofu stofnunarinnar. Hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands er ég síðan að undirbúa námskeiðið Skjalastjórn, kynning.

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er starfsemi skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Með orðalaginu „starfsemi skóla- og menntastofnana“ er átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér fastan sess í almenna skólakerfinu. Ekki er nægjanlegt að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.

Í bréfinu kemur fram að ekki er um að ræða námskeið sem eru opin almenningi heldur eru námskeiðin lokuð og sniðin að þörfum ákveðinnar stofnunar eða fyrirtækis og haldin fyrst og fremst fyrir starfsfólk viðkomandi stofnunar/fyrirtækis.

Einnig er ljóst að ekki er boðið upp á slíka námsbraut í almenna skólakerfinu þó að í undirbúningi sé kynning á skjalastjórn í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Er það álit ríkisskattstjóra að framangreind starfsemi geti ekki fallið undir undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt og sé því virðisaukaskattsskyld sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.