Dagsetning Tilvísun
6. desember 1996 765/96
Virðisaukaskattur – góðgerðarstarfsemi – sala skafmiða
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. nóvember sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort sala félagsins á skafmiðum til fyrirtækja sé virðisaukaskattsskyld.
Bréfi yðar fylgja upplýsingar um hvernig umrædd viðskipti fara fram. Meðal annars kemur fram að skafmiðarnir eru seldir fyrirtækjum sem skuldbinda sig til að gefa þá viðskiptavinum sínum á meðan á skafmiðaleiknum stendur. Jafnframt kemur fram að ef fyrirtæki á eftir óafhenta miða þegar leiknum er lokið þá megi þau ráðstafa þeim að eigin vild, t.d. með því að gefa starfsfólki þá. Einnig liggja þær upplýsingar fyrir að dómsmálaráðuneytið telur að hér sé ekki um happdrættisstarfsemi að ræða og því er félaginu ekki skylt að fá leyfi ráðuneytisins til skafmiðaleiksins.
Ljóst er af framansögðu að ekki er um happdrættisstarfsemi ræða og því er starfsemin hvorki undanþegin á grundvelli 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, né annarra ákvæða laganna.
Á grundvelli 5. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga hefur verið sett reglugerð nr. 564/1989, um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi. Í umræddri reglugerð er ýmis góðgerðarstarfsemi undanþegin virðisaukaskatti enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til líknarmála. Í 2. gr. reglugerðarinnar er síðan talin upp sú starfsemi sem getur fengið undanþágu á grundvelli hennar. Undir 1. tölul. greinarinnar fellur basarsala (flóamarkaður), merkjasala og önnur slík sala góðgerðarfélaga. Hefur verið talið að undir töluliðinn falli m.a. sala jólakorta, ljósapera og ýmis konar varnings í neytendaumbúðum enda sé verðlagning ekki undir almennu gangverði sams konar varnings.
Í umræddu tilviki eru skafmiðar seldir fyrirtækjum og er aðaltilgangurinn með útgáfu skafmiðans að styrkja forvarnastarf gegn vímuefnaneyslu barna og unglinga. Þrátt fyrir að salan sé eingöngu til rekstraraðila er það álit ríkisskattstjóra að umrædd starfsemi falli undir 1. tölul. 2. gr. framangreindrar reglugerðar enda gert ráð fyrir því að hagnaðurinn mun renna að öllu leyti til líknarmála. Starfsemin þarf þó að uppfylla önnur skilyrði ákvæðisins, m.a. að ef um er að ræða árlegan atburð má starfsemi vara allt að 15 daga en annars þrjá daga ef um mánaðarlega sölustarfsemi er að ræða.
Að lokum skal þess getið að sækja þarf um undanþágu þessa til skattstjóra í viðkomandi umdæmi (Reykjavík) og skal umsókn hafa borist skattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst. Þar sem umsókn þessi barst ríkisskattstjóra mun hann framsenda skattstjóranum í Reykjavík umsókn yðar sem afgreiðir hana formlega.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsóttir.