Dagsetning Tilvísun
21. sept. 1998 880/98
Virðisaukaskattur – góðgerðarstarfsemi – verslun með notaða eða nýja muni
Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. júlí sl. til fjármálaráðuneytisins sem framsendi það til ríkisskattstjóra dags. 20. júlí. Í bréfinu er óskað eftir áliti ríkisskattsjóra á því hvort S. beri að innheimta virðisaukaskatt af sölu muna, nýrra sem notaðra, í fjáröflunarskyni.
Til svars bréfinu skal fyrst tekið fram að skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Hins vegar getur viss góðgerðarstarfsemi verið undanþegin skv. 5. mgr. sömu greinar að uppfylltum vissum skilyrðum. Samkvæmt ákvæðinu getur m.a. sala nytjamarkaða verið undanþegin enda séu einungis seldir notaðir munir sem söluaðili hefur fengið afhenta án endurgjalds. Ákvæðið getur því í engum tilvikum náð til verslunar þar sem seldir eru nýir munir.
Frekari skilyrði fyrir undanþágu á góðgerðarstarfsemi eru:
- að hagnaður af starfseminni renni að öllu leyti til líknarmála en skilgreiningu á því hvað teljist vera líknarmál í skattalegu tilliti má finna í c. lið 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi,
- að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslega áhættu aðila og
- að aðili hafi fengið staðfestingu skattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt.
Með vísan til framanritaðs er ljóst að umrædd starfsemi er virðisaukaskattsskyld og að ekkert undanþáguákvæði laga nr. 50/1988 á við um hana.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.