Dagsetning                       Tilvísun
13. desember 1996                             773/96

 

Virðisaukaskattur – greiðsla fyrir aðstöðu eftirlitsmanns um borð í fiskiskipi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. nóvember sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því í hvort innheimta beri 24,5% virðisaukaskatt af heildarreikningi vegna sölu á aðstöðu um borð í fiskiskipi þó að innifalið í þeirri sölu sé gisting eða hvort sá hluti beri 14% virðisaukaskatt.

Meðfylgjandi bréfi yðar er reikningur fyrir sölunni. Á honum er eftirfarandi lýsing á hinu selda: Fæðiskostnaður, gisting og önnur aðstaða og fjarskiptakostnaður.

Samkvæmt bréfi yðar er um að ræða greiðslu vegna kostnaðar við veru eftirlitsmanns Fiskistofu um borð í skipi í yðar eigu. Ljóst er að hér er verið að krefja um greiðslu vegna aðstöðu um borð í skipi og er það því álit ríkisskattstjóra að þó að eftirlitsmaður dvelji um borð í skipi vegna starfa sinna þá sé ekki um að ræða sölu á gistingu enda stundar seljandi ekki útleigu á hótel- og gistiherbergjum eða annarri gistiþjónustu. Umrædd sala eða hluti hennar fellur því ekki undir 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Samkvæmt framansögðu ber því að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af heildarendurgjaldi fyrir umrædda sölu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.