Dagsetning Tilvísun
28. febrúar 1997 786/97
Virðisaukaskattur – greiðsla skaðabóta vegna bifreiðatjóns.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. febrúar 1997, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort vátryggingafélögum sé heimilt að draga frá virðisaukaskatt og launatengd gjöld þegar samkomulagsbætur eru greiddar.
Til svars bréfi yðar verður fyrst rætt um bótafjárhæðir þegar tjónþoli er skráður aðili skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en svo vikið að því tilviki þegar tjónþoli er óskráður aðili (einstaklingur ekki í rekstri eða aðili undanþeginn skattskyldu).
Fyrirtæki sem verður fyrir tjóni á rekstrarfjármunum, þ.m.t. bifreiðum, getur talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar o.þ.h. til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts í 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988. Þetta gildir óháð því hvort það (tjónþoli) ber tjónið sjálft eða fær það bætt að fullu eða hluta af tjónvaldi eða vátryggingarfélagi.
Af frádráttarheimildinni leiðir að hugsanleg bótafjárhæð miðast við kostnað (enduröflunarverð, viðgerðarkostnað) án virðisaukaskatts. Hafi tjónþoli aðeins frádráttarrétt að hluta (sbr. reglugerð nr. 192/1993, um innskatt) bætist sá virðisaukaskattur sem hann getur ekki talið til innskatts við áðurgreinda fjárhæð.
Þegar tjónþoli er óskráður aðili, t.d. einstaklingur ekki í rekstri, miðast sú fjárhæð sem vátryggingarfélag eða tjónvaldur kann að greiða í bætur við kostnað með virðisaukaskatti. Sama gildir þegar skráð fyrirtæki (tjónþoli) hefur ekki frádráttarrétt vegna tjónamunar (t.d. ef um er að ræða fólksbifreið fyrir níu menn eða færri).
Rétt er að taka fram að í bréfi því er fylgir fyrirspurn yðar dags. 10. janúar frá vátryggingar-félagi kemur fram að viðkomandi vátryggingarfélag hefur ekki miðað bótafjárhæð sína við það sem embætti ríkisskattstjóra telur vera rétt, þ.e. við ákvörðun bóta hefur ekki verið gert ráð fyrir virðisaukaskatti þó að ljóst sé að tjónþoli beri virðisaukaskatt af viðgerð að fullu.
Það skal jafnframt upplýst að með bréfi dags. 17. jan. 1990 sendi ríkisskattstjóri Sambandi íslenskra tryggingafélaga minnisatriði varðandi virðisaukaskatt af vátryggingarstarfsemi þar sem m.a. kemur fram álit embættisins um hvenær virðisaukaskattur skuli vera inn í bótafjárhæð.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.