Dagsetning                       Tilvísun
12. janúar 1996                             712/96

 

Virðisaukaskattur – greiðslumiðlunarþjónusta R.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. desember 1995, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af greiðslumiðlunarþjónustu R.

Í bréfi yðar segir að á undangengnum árum hafi þjónusta R við P&S verið fólgin í greiðslumiðlun tékka og gíróseðla í svokölluðu AH – kerfi sem meðal annars sjái um prentun afstemmingar-, bókunar- og villulista. Jafnframt segir að P&S geymi undirgögn vegna skjalalausra færslna rétt eins viðskiptabankar og sparisjóðir geri.

Síðan segir í bréfinu að sú breyting á framangreindri greiðslumiðlun sem P&S fari fram á að R láti stofnuninni í té sé fólgin í því að hún fái aðgang að svonefndum beinlínuviðskiptum sem bankar og sparisjóðir hafi komið sér upp fyrir tilstilli R. Hagræðið við beinlínuvinnsluna felist í því að P&S geti gengið úr skugga um að til sé innistæða fyrir tékka sem verið er að greiða með hverju sinni í stað þess að stofnunin fái innistæðulausa tékka endursenda miðað við núverandi fyrirkomulag.

Fyrirspurn yðar lýtur að því hvort aðgangur að svonefndum beinlínuviðskiptum banka og sparisjóða falli innan hinnar eiginlegu bankastarfsemi og sé því undanþeginn virðisaukaskatti. Í beinlínuviðskiptum felst sú þjónusta að hægt er að kanna hvort innistæða sé á viðskiptareikningi fyrir tékka eða ekki. Þjónustan er veitt í gegnum símalínu. Ljóst er að móttakandi tékka getur fengið upplýsingar hjá viðkomandi banka eða sparisjóði í gegnum síma hvort innistæða er fyrir hendi eða ekki.

Verður ekki annað séð en að þessi þjónusta, sem P&S kaupir af R í formi aðgangs að beinlínutengingu sé einskonar framlenging á eiginlegri bankaþjónustu, eini munurinn er, að hún er ekki veitt af starfsmönnum bankans, heldur í gegnum svokallaða beinlínutengingu, sem er tölvutenging við banka. Notandinn er beinlínutengdur við Reiknistofu bankanna, rétt eins og um bankagjaldkera væri að ræða.

Samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun undanþegin virðisaukaskatti. Undir undanþáguákvæðið fellur eiginleg banka- og lánastarfsemi.

Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að sú greiðslumiðlunarþjónusta sem P&S óskar eftir frá R sé í raun eiginleg bankaþjónusta, þó að hún fari fram í gegnum gagnaflutningsnet Pósts og síma enda er hægt að fá slíka þjónustu með öðrum hætti hjá viðkomandi banka eða sparisjóði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir