Dagsetning                       Tilvísun
24. ágúst 1990                            129/90

 

Virðisaukaskattur – handiðnaður – listmunavinna

Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. janúar 1990, þar sem farið er fram á álit ríkisskattstjóra á því hvort handunnir munir sem þér smíðið teljist listaverk í skilningi laga um virðisaukaskatt, sbr. 2. tölul. 4. gr. laganna.

Ríkisskattstjóri hefur hinn 7. júní sl. móttekið nánari gögn um málið, þ.m.t. ljósmyndir af nokkrum munum.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt tekur aðeins til listaverka sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000. Sala á hvers konar nytjamunum er virðisaukaskattsskyld.

Samkvæmt framkomnum upplýsingum er starfsemi yðar fólgin í smíði á ýmsum munum úr tré, m.a. útskornum baukum, öskum, fundahömrum, gestabókum og kertastjökum.

Ríkisskattstjóri hefur af öðru tilefni leitað álits ríkistollstjóra á tollflokkun muna af þessu tagi. Að mati ríkistollstjóra féllu þeir ýmist í tollskrárnr. 4420.1000, 4420.9009, 9403.6009 eða 9405.2009. Sjá um þetta hjálagt bréf ríkisskattstjóra, dags. 7. maí sl.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að sala á smíðagripum yðar sé virðisaukaskattsskyld starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.