Dagsetning Tilvísun
11. okt. 1990 149/90
Virðisaukaskattur – heilsuræktarstarfsemi.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. sept. sl., þar sem gerð er grein fyrir starfsemi umbjóðenda yðar og leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort um virðisaukaskattsskylda starfsemi sé að ræða.
Starfseminni er lýst þannig:
„Tekið var við hópum til 6-8 daga dvalar. Aðaláhersla þessa daga er lögð á heilbrigði líkamans, hvernig má viðhalda og bæta hana. Þetta er gert með daglegum líkamsæfingum, fræðslu í gerð macrobiotisks fæðis, sem er jurta og kornmatur að uppistöðu. Þá er fræðsla um áhrif jákvæðra hugsunar og jákvæðra lifsviðhorfa á starfsemi líkamans og starfandi læknar fluttu erindi um heilsufæði sem gerir einstaklingnum kleift að hafa betri yfirsýn um áhrif hollra líkamsæfinga, fæðis og jákvæðra viðhorfa á líkama sinn.“
Til svars erindinu skal tekið fram að íþróttastarfsemi, svo og aðgangseyrir að heilsuræktarstofum er undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Ýmis skóla- og menntastarfsemi er undanþegin skv. 3. tölul. sömu málsgreinar og hefur verið talið að matreiðslunámskeið féllu undir það ákvæði. Eins og starfsemi umbjóðanda yðar er lýst virðist hún undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli framangreindra lagaákvæða.
Þess skal getið að rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Þá er öll önnur fæðissala en til nemenda skattskyld.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.