Dagsetning Tilvísun
7. feb. 1990 16/90
Virðisaukaskattur – herbergjaþjónusta.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. desember sl., þar sem þeirri spurningu er beint til ríkisskattstjóra hvort herbergjaþjónusta geti fallið undir ræstingu í skilningi 3. tölul. l. mgr. 2. gr. reglug. nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.
Í bréfi yðar segir um störf herbergisþerna að þau felist í því að búa um rúm gestanna, taka til, skipta um handklæði, sápur og aðrar hreinlætisvörur, ryksuga gólf, hreinsa húsgögn o.fl. Í bréfinu kemur fram að eitt hótelanna í Reykjavík kaupir þessa þjónustu af atvinnufyrirtæki. Til svars erindinu skal tekið fram að með ræstingu í áðurnefndu reglugerðarákvæði er að áliti ríkisskattstjóra átt við almenn ræstingar- og hreingerningarstörf, jafnt daglega ræstingu sem meiri háttar hreingerningar. Dagleg tiltekt á hótelherbergi, sbr. lýsingu í bréfi yðar, þykir þó falla fyrir utan skattskyldu samkvæmt reglugerðinni.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.