Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              99/90

 

Virðisaukaskattur – hestaferðir, sala hesta o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. maí sl., um virðisaukaskatt af starfsemi félagsins. Fram kemur í bréfinu að félagið skipuleggi hestaferðir, aðallega 3 til 7 daga ferðir, auk þess sem það kaupi og selji hesta og/eða hafi milligöngu um hestasölu til útlanda.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Sala hesta í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi á sama hátt og önnur vörusala. Sala vöru, þ.m.t. hesta, til útlanda er undanþegin skattskyldri veitu (ber „núll-skatt“), sbr. l. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt.
  1. Leiga lausafjár í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi, þ.m.t. hestaleiga. Í þessu sambandi skal þó tekið fram að svonefndar hestaferðir eru að áliti ríkisskattstjóra undanþegnar virðisaukaskatti skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt (fólksflutningar). Með „hestaferð“ er átt við skipulagða hópferð á hestum undir leiðsögn fararstjóra.
  1. Leiðsögn sem veitt er í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld þjónusta.

Þegar um skattskylda sölu er að ræða ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarendurgjaldi fyrir selda vöru og þjónustu, en við skil skattsins má draga frá allan þann virðisaukaskatt (innskatt) sem fellur á kaup skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu til nota við þá starfsemi.

Þannig er heimilt að telja að fullu til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar. Að sama skapi er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða hinn skattfrjálsa hluta starfseminnar, en undanþágur skv. lið 2 hér að framan(hestaferðir) ná aðeins til endurgjalds vegna þeirrar þjónustu sem þar um ræðir; ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfseminnar.

Af framansögðu leiðir að þeir sem bæði selja skattskylda vöru eða þjónustu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti verða að skipta þeim virðisaukaskatti sem fellur á innkaup í innskatt (frádráttarbæran virðisaukaskatt) og virðisaukaskatt sem ekki er frádráttarbær. Um þessi atriði vísast nánar í leiðbeiningarrit ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.