Dagsetning Tilvísun
30. júlí 1991 324/91
Virðisaukaskattur – hestamannamót o.fl.
Með bréfi yðar, dags. 29. þ.m., er óskað leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af aðgangseyri að hestamannamóti. Fram kemur í gögnum sem fylgdu erindinu að auk keppni í hestaíþróttum verði dansleikir og skemmtisamkomur meðal dagskrárliða á mótinu. Virðist sami aðgöngumiði gilda á sjálft mótið og þá dansleiki sem haldnir verða í tengslum við það.
Af þessu tilefni tekur ríkisskattstjóri fram að hann lítur svo á að starfsemi innan íþróttadeilda hestamannafélaga falli undir undanþáguákvæði 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Undanþágan veldur því að ekki skal innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri að hestaíþróttamóti. Undanþáguákvæðið tekur hins vegar ekki til aðgangseyris að dansleikjum eða öðrum skemmtisamkomum sem eru virðisaukaskattsskyldar samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laganna.
Sé aðgangur ekki seldur sérstaklega að skattskyldri skemmtun, sem haldin er í tengslum við íþróttamót, heldur innifalinn í verði heildaraðgöngumiða, verður skattstjóri að áætla hlut skattverðs í heildarverði. Sama gildir ef aðgangur að hinni skattskyldu samkomu er veittur gegn málamyndagjaldi. Við ákvörðun skattverðs í þessu sambandi skal, sbr. 2. mgr. 8. gr. virðisaukaskattslaga, miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum, en liggi slíkt gangverð ekki fyrir skal reikna verð hinnar skattskyldu þjónustu með því að taka tillit til alls kostnaðar að viðbættri álagningu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.