Dagsetning Tilvísun
18. apríl 1997 797/97
Virðisaukaskattur – hitaveituframkvæmdir sumarbústaðaeigenda
Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. janúar sl., þar sem óskað er álits embættisins á því hvort félag sumarbústaðaeigenda sé skráningarskylt vegna reksturs á hitaveitu.
Í bréfi yðar er óskað úrlausnar embættisins á eftirfarandi álitamálum:
- Mun félagið geta nýtt sér innskatt af efni og vinnu við lagningu veitunnar, enda útskatti félagið sölu á vatninu til félagsmanna sinna.
- Skiptir máli hvort innheimt séu tengigjöld fyrir hvern bústað eða hvort félagið leggi til lögnina og selji aðeins vatn.
- Fái félagið ekki innskatt af lögninni og rekstri veitunnar ber því að innheimta virðisaukaskatt af sölu vatnsins eða landeigandi og ef svo er í hvaða skattþrepi.
- Breytir form félagsins einhverju í þessu sambandi, t.d. sé það rekið í hlutafélagsformi þannig að hver eigandi keypti hlut í félaginu og félagið sjái um lögnina og innheimti greiðslu fyrir vatnið og rekstur veitunnar.
- Sé félagið rekið í hlutafélagsformi, skiptir máli hvort aðeins hluti notenda eigi félagið, en selji öðrum afnot af veitunni.
Við svar á bréfi yðar skiptir meginmáli hvort umrætt félag telst skráningarskylt samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Samkvæmt framangreindum lögum eru allir þeir skattskyldir sem selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inn af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi. Kemur þessi meginregla fram í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þess er getið í athugasemdum með frumvarpi til virðisaukaskattslaga að við mat á því hvort aðili hafi með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, þ.e. hvort um er að ræða skattskyldu skv. 1. tölul., fari eftir svipuðum sjónarmiðum og gilda um þessi atriði í tekjuskattslögum.
Jafnframt eru samvinnufélög, svo og önnur félög og stofnanir, skattskyld til virðisaukaskatts, enda þótt þau séu undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða sérstökum lögum, að því leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Skattskyldan tekur einnig til þess þegar einungis er selt félagsmönnum.
Með vísan til þess sem kemur fram í bréfi yðar er þó ekki ljóst hvort um atvinnurekstur er að ræða, þ.e. hvort tilgangur með stofnun hitaveitunnar sé sá að félagið hagnist af rekstrinum. Ef hagnaðartilgangur er með rekstrinum er vafalaust að félagið reki virðisaukaskattsskylda starfsemi sem ber þá að skrá hjá viðkomandi skattstjóra.
Ef aftur á móti megintilgangur með rekstri hitaveitunnar er einungis kostnaðarskipting félagsmanna þá er ekki um að ræða virðisaukaskattsskylda sölu og ber því félaginu hvorki að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af því vatni sem þeir dreifa né hafa þeir rétt á að fá virðisaukaskatt af aðföngum endurgreiddan í formi innskatts. Við þessar aðstæður telst félagið því ekki hafa með höndum atvinnustarfsemi í skilningi tekju- og virðisaukaskattslaga.
Ef félagið verður rekið í hagnaðarskyni ber að tilkynna um reksturinn til skráningar hjá skattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemin hefst, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er forsenda skráningar að samanlagðar tekjur aðila af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu séu að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Jafnframt kemur fram í sama ákvæði að eigi skuli skrá aðila samkvæmt greininni nema sýnt þyki að starfsemin muni skila tekjum af sölu skattskyldrar vöru eða þjónustu þegar á fyrsta uppgjörstímabili.
Líklegt þykir að umrætt félag fái ekki skráningu skv. 2. gr. framangreindrar reglugerðar. Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. eiga aðilar sem stunda starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi rétt á skráningu standi kaup þeirra á fjárfestingarvörum í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum, sbr. 1. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar. Skilyrði fyrir slíkri fyrirfram skráningu eru tíunduð í 4. gr. og skulu þeir aðilar sem óska eftir slíkri skráningu senda skattstjóra rekstraráætlun, greinargerð og önnur gögn um starfsemina til staðfestingar því að um eðlilega rekstraruppbyggingu sé að ræða. Að öðru leyti er vísað til ákvæða reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Að lokum skal tekið fram að sala á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns ber 14% virðisaukaskatt, sbr. 7. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.