Dagsetning Tilvísun
21. mars 1991 259/91
Virðisaukaskattur – hlífðarföt, söluskattskvaðir á loðdýrahúsum.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. nóvember 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort bændur hafi rétt til að færa vinnufatnað, stígvél og önnur hlífðarföt sem eingöngu eru notuð í þágu búvöruframleiðslunnar á gjaldahlið rekstursreiknings með tilliti til innsköttunar.
Að áliti ríkisskattstjóra er ekki heimilt að telja virðisaukaskatt af ofangreindum kostnaði til innskatts. Er í þessu sambandi tekið mið af því að samkvæmt þeirri framkvæmd sem mótast hefur við tekjuskattsálagningu hefur ekki verið talið heimilt að gjaldfæra kaup á hlífðarfötum bænda á rekstursreikning.
Þeim þætti bréfs yðar sem varðar meðferð söluskattskvaða á loðdýrahúsum hefur verið vísað til fjármálaráðuneytisins til afgreiðslu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.