Dagsetning                       Tilvísun
10. desember 1996                            768/96

 

Virðisaukaskattur – hráefni til fiskvinnslu

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. ágúst sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra

hvort heimilt sé að færa á bráðabirgðaskýrslu virðisaukaskatts innskatt vegna kaupa á eftirtöldu:

1) Fiski sem er hausaður og heilfrystur.

2) Heilfrystum fiski, hausuðum, sporðskornum og blóðhreinsuðum t.d. grálúðu, kola og flúru til frekari aðvinnslu.

3) Sjófrystri rækju sem keypt er til uppþýðingar og frekari aðvinnslu (pokarækja/ iðnaðarrækja).

4) Heilfrystum silungi og laxi til frekari aðvinnslu, t.d í reyk.

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að til “hráefnis til fiskvinnslu” skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 563/1989, telst einkum ferskur fiskur; óslægður eða slægður. Hins vegar hefur ríkisskattstjóri með bréfi nr. 755/1996, dags. 14. október sl., gefið það álit að fiskur sem hefur verið frystur um borð í skipum teljist jafnframt til hráefnis samkvæmt ákvæðinu enda sé hann þá ekki frekar unninn. Það er álit ríkisskattstjóra að fiskur sem keyptur er frystur og slægður teljist til hráefnis til fiskvinnslu skv. 1. mgr. 4. gr. umræddrar reglugerðar, þrátt fyrir að hann sé einnig hausaður og sporðskorinn skv. (liður 1 og 2) enda verði um frekari vinnslu að ræða.

Hvað varðar sjófrysta rækju (liður 3) gildir hið sama enda er frystingin eingöngu í þeim tilgangi að halda hráefninu fersku og eftir er að vinna það frekar.

Varðandi síðasta hluta fyrirspurnar yðar skal tekið fram að umrædd ákvæði voru sett til að jafna samkeppnisstöðu milli útgerða með fiskvinnslu og fyrirtækja sem eru eingöngu með fiskvinnslu. Þegar af þessari ástæðu er ljóst að heilfrystur silungur og lax sem keyptur er af fiskeldisstöðvum telst ekki til hráefnis samkvæmt umræddu ákvæði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.