Dagsetning                       Tilvísun
11. febrúar 1992                            385/92

 

Virðisaukaskattur – Í.

Með bréfi yðar, dags. 16. júlí 1991, er þeirri fyrirspurn beint til ríkisskattstjóra hvernig haga beri meðferð virðisaukaskatts í því tilviki sem nú skal reifað:

Erlent fyrirtæki, sem nú hefur stofnsett útibú hér á landi, kostar viðhald, nýsmíði tækjabúnaðar og aðstöðu vegna uppbyggingar verksmiðju hér á landi. Íslenskt hlutafélag í meirihlutaeigu hins erlenda fyrirtækis rekur verksmiðjuna og hefur þar með afnot af fjárfestingunni.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að skráningarskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt tekur til erlendra aðila sem hafa með höndum skattskyld viðskipti hér á landi. Ef ekki er um að ræða útibú eða aðra fasta starfsstöð hérlendis ber hinum erlenda aðila að tilnefna fyrirsvarsmann til skráningar, sbr. 6. tölul. l. mgr. 3. gr. laganna. Er þá litið svo á að fyrirsvarsmaður beri ásamt hinum erlenda aðila ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts af sölu, eigin úttekt o.s.frv.

Að því gefnu að útibú hins erlenda aðila reikni sér endurgjald fyrir notkun rekstrarfélagsins á vélum, tækjum og öðrum lausafjármunum, þ.e. um sé að ræða sölu á skattskyldri þjónustu, er það skráningarskylt skv. lögum um virðisaukaskatt og ber að útskatta leigugjaldið. Jafnframt getur útibúið talið virðisaukaskatt af viðhaldi eignanna o.s.frv. til innskatts eftir almennum reglum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.