Dagsetning Tilvísun
24. febrúar 1994 620/94
Virðisaukaskattur í landbúnaði
Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. desember 1992, þar sem lagðar eru fram nokkrar spurningar varðandi meðferð virðisaukaskatts í landbúnaði.
1. Spurt er hvernig fari um greiðslur frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, s.s. frestun launaliðs, sala fullvirðisréttar í sauðfé og mjólk, bætur fyrir förgun áa, álag/afföll vegna sölu eða förgunar, endurgreitt kjarnfóðurgjald, niðurgreiðslu vegna svína.
Svar: Að mati ríkisskattstjóra ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af greiðslum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, þar sem um er að ræða styrki án endurgjalds frá óskráðum aðila. Greiðslurnar eru utan skattskyldusviðs laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ber því eigi að tilgreina þær á virðisaukaskattsskýrslu.
2. Spurt er hvort eftirtaldir liðir falli undir skattskylda veltu, undanþegna veltu eða komi ekki fram á virðisaukaskattsskýrslu (utan skattskyldusviðs).
a. Beinar greiðslur til sauðfjárbænda.
Svar: Samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði vegna mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu teljast ekki til skattskyldrar veltu skv. 8. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 18. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum. Hér er átt við beinar greiðslur til bænda skv. búvörusamningi, en þessar greiðslur komu fyrst til framkvæmda á árinu 1992. Greiðslur þessar ber að tilgreina í reit C á virðisaukaskattsskýrslu.
Að öðru leyti fer um greiðslur til bænda fyrir sölu á vöru eða þjónustu eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga.
b. Arður af hlunnindum, s.s. laxveiðihlunnindum.
Svar: Sölutekjur af hlunnindum er skattskyldar skv. almennum reglum virðisauka-skattslaga. Það fer hins vegar eftir eðli hlunnindanna hvort tekjur af þeim teljist innan skattskyldusviðs laganna eða ekki.
Samkvæmt 8. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Endurgjald fyrir veiðirétt fellur hér undir – hvort sem um er að ræða sölu lax- eða silungsveiðileyfa – enda sé það fast gjald, óháð veiðifeng. Greiðslurnar eru utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, og ber því eigi að tilgreina þær á virðisaukaskattsskýrslu. Sé greiðsla tengd því hversu mikið veiðist verður að telja að um sé að ræða virðisaukaskattsskylda vörusölu (sala á fiski).
c. Vaxtatekjur af afurðum.
Svar: Fram kemur í 7. gr. virðisaukaskattslaga að skattverð miðast við heildar-endurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Almennt leiðir af ákvæðum 7. gr. að telja ber greiðslur sem seljandi krefur kaupanda um, aðra en eiginlega vexti, til skattverðs.
d. Söluhagnaður.
Svar: Virðisaukaskatt ber að leggja á skattskylda sölu á vöru og þjónustu. Ef hagnaður er af þeim viðskiptum, þá getur hann verið skattskyldur samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
e. Leiga fullvirðisréttar/mjólkurkvóta til ríkissjóðs eða annars bónda.
Svar: Framsal óefnislegra réttinda skráðs aðila (bónda) er skattskyld samkvæmt meginreglu 2. gr. virðisaukaskattslaga og skiptir eigi máli í því sambandi hver er kaupandi hverju sinni. Þó þykir að svo stöddu rétt að telja sölu eða leigu á fullvirðisrétti (framleiðslurétti búvara) undanþegna virðisaukaskatti, þar sem talið hefur verið að um fasteignatengd réttindi sé að ræða.
f. Búfjárverðlaun.
Svar: Búfjárverðlaun eru utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, enda eru verðlaunin afhent án þess að raunverulegt endurgjald komi í staðinn.
g. Útleiga túna og jarða.
Svar: Eins og áður segir er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 8. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Hugtakið fasteignaleiga í skilningi laganna tekur til þess þegar leigusali lætur leigutaka í té svo víðtæk afnot eignar sinnar að þau jafnast nokkurn veginn á við raunveruleg umráð eiganda (orðalagið raunveruleg umráð er hér notað til aðgreiningar frá lagalegum umráðum, svo sem rétti til sölu og veðsetningar). Um gerninga sem veita afnot af húsnæði er höfð hliðsjón af því hvort lög nr. 44/1979, um húsaleigusamninga, taki til réttarsambandsins.
Sé leiga fyrir afnot af fasteign innan þrengri marka en að framan getur, þá er um skattskylda aðstöðuleigu að ræða, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.
3. Í bréfi yðar segir að tilmæli hafi komið frá landbúnaðarráðuneyti og Fram-leiðsluráði landbúnaðarins um að það sauðfé, sem kemur frá einu lögbýli, sé lagt inn á nafn eins innleggjanda, og að viðkomandi eigi síðan að millifæra greiðslur til annarra eigenda sauðfjárins á lögbýlinu. Spurt er:
a. Ber afurðarstöðinni að gefa út einn afurðarmiða á lögbýli, þ.e. á þann sem skráður er fyrir innlegginu eða gefur hún út á alla þá sem raunverulega eiga innlegg?
b. Þar sem innleggjandi þarf að öllum líkindum að greiða virðisaukaskatt af öllu innlegginu, jafnvel þótt sumir eigendur séu 16 ára og eldri og hafi ekki virðisaukaskattsnúmer, þá er spurt hvort þetta fyrirkomulag sé í samræmi við virðisaukaskattslög.
Svar: Í 8. gr. reglugerðar nr. 336/1992, um greiðslumark sauðfjárafurða á lögbýlum og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 1993-1994, kemur fram að sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskatts-uppgjör.
Samkvæmt 3. mgr. 21. gr., sbr. 20. gr. virðisaukaskattslaga ber þeim, sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu að gefa út innleggsnótur (afreikninga) eða móttökukvittanir, sem geta komið í stað reikninga. Afurða-stöðinni ber að gefa út slíka afreikninga til þeirra sem fram koma sem seljendur framleiðslu. Þess ber að geta að viðkomandi seljandi, sem kemur fram sem seljandi fyrir hönd annarra aðila á sama lögbýli, ber að útskatta alla sölu lögbýlis síns á skattskyldri vöru og þjónustu, enda hefur hann jafnframt notið innskatts-frádráttar vegna starfsemi sinnar, óháð því hvort hann á sjálfur allar skepnur sem á býli hans eru aldar.
4. Seinasta spurning yðar varðar reglugerð nr. 637/1989, um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af matvöru o.fl. Þar sem reglugerð þessi er fallin úr gildi, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 563/1993, um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af neyslufiski, telst eigi þörf á að svara þessari spurningu yðar.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara bréfi yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir