Dagsetning                       Tilvísun
24. apríl 1996                            733/96

 

Virðisaukaskattur – iðjuþjálfun – heilbrigðisþjónusta

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. apríl 1996, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort sjálfstætt starfandi iðjuþjálfa beri að innheimta virðisaukaskatt af námskeiðum um orkusparandi vinnuathafnir og slökun, svo og af úttekt og ráðgjöf um vinnuaðstöðu í fyrirtækjum.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að í 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er undanþegin virðisaukaskatti þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta.

Það er mat ríkisskattstjóra að ofangreind störf iðjuþjálfa, sem hlotið hefur starfsleyfi heilbrigðisráðherra skv. 1. gr. laga nr. 75/1977, um iðjuþjálfun, séu undanþegin virðisaukaskatti, þar sem þau teljist vera liður í eiginlegri heilbrigðisþjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson