Dagsetning                       Tilvísun
22. október 1997                            826/97

 

Virðisaukaskattur – innskattur af greiðsluskjölum frá tollyfirvöldum – tollkrít

Í tilefni af fyrirspurnum frá skattstjórum um hvað teljist fullnægjandi greiðsluskjal frá tollyfirvöldum vegna innskattsfrádráttar þegar um er að ræða greiðslufrest við tollafgreiðslu telur ríkisskattstjóri rétt að koma eftirfarandi á framfæri í þeim tilgangi að samræma framkvæmd að þessu leyti.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 skal skattskyldur aðili, til sönnunar á innskatti, geta lagt fram greiðsluskjöl frá tollyfirvöldum fyrir virðisaukaskatti sem lagður er á vörur þær er hann flytur inn. Meginreglan er því sú að greiðsluskjal frá tollyfirvöldum er gilt innskattsskjal án tillits til þess hvort veittur hefur verið greiðslufrestur á skattinum eða ekki. Í 3. mgr. 34. gr. laganna er kveðið á um heimild ráðherra til að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning. Í síðari málslið ákvæðisins er tekið fram að gjalddagi greiðslufrests skuli eigi vera síðar en á gjalddaga virðisaukaskatts þess tímabils þegar tollafgreiðsla fer fram. Þrátt fyrir að í heimildarákvæðinu séu sett þau skilyrði að gjalddagi greiðslufrests skuli eigi vera síðar en á gjalddaga virðisaukaskatts þess tímabils þegar tollafgreiðsla fer fram þá eru ákvæði reglugerðar nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli, um gjalddaga ekki í samræmi við lagaákvæðið. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því í lögunum að gjaldandi fái virðisaukaskatt af innflutningi endurgreiddan sem innskatt áður en hann greiðir tollkrítina er það álit ríkisskattstjóra að óheimilt sé að telja greiðsluskjal vegna tollkrítar gilt sem innskattsskjal nema ljóst sé að gjaldandi hafi greitt virðisaukaskatt af innflutningi í þessum tilvikum. Af þessu leiðir að kanna þarf skilamáta innflytjenda í þeim tilvikum sem innskattsskjal er greiðsluskjal með greiðslufresti.

Í bréfi ríkisskattstjóra dags. 14. október 1996 (tilv. 755/96) kemur sú túlkun fram að óheimilt sé að taka greiðsluskjal með greiðslufresti gilt sem innskattsskjal hjá aðilum sem eru með bráðabirgðaskil vegna fiskvinnslu enda er sá skilamáti dæmi um það þegar gjalddagi greiðslufrests er síðar en gjalddagi virðisaukaskatts þess tímabils sem tollafgreiðsla fer fram og er sú túlkun í samræmi við ofangreint.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.