Dagsetning                       Tilvísun
16. desember 1991                             370/91

 

Virðisaukaskattur – innskattur af húsnæðiskostnaði.

Með bréfi yðar, dags. 7. júní sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur af kostnaði við byggingu eða breytingu íbúðarhúsnæðis, sem notað er að hluta undir virðisaukaskattsskylda starfsemi, sé frádráttarbær að hluta sem innskattur.

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt er ekki heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn skattaðila. Í 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, kemur sú regla fram að engu breyti í þessu sambandi þótt aðili noti íbúðarhúsnæði einnig vegna atvinnu sinnar.

Með vísan til þessara reglna lítur ríkisskattstjóri svo á að ekki sé innskattsfrádráttur vegna kostnaðar við byggingu, endurbætur, viðhald eða umhirðu íbúðarhúsnæðis þótt það sé einnig notað vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Þetta gildir bæði (1) þegar afmarkaður hluti íbúðarhúsnæðis, t.d. bifreiðageymsla, ein hæð íbúðarhúss eða einstök herbergi, er notaður fyrir skattskylda starfsemi og (2) þegar húsnæði er notað jöfnum höndum til íbúðar og atvinnu.

Ef bæði atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði er í sömu byggingu verður skipting í þessa tvo flokka húsnæðis að liggja fyrir á formlegan hátt með skráningu hjá Fasteignamati ríkisins. Er skráðum aðila þá heimilt að telja virðisaukaskatt af byggingarframkvæmdum o.s.frv. við atvinnuhúsnæðið til innskatts, enda noti hann það fyrir skattskylda starfsemi sina og ekki á neinn hátt til íbúðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.