Dagsetning                       Tilvísun
18. júní 1991                            288/91

 

Virðisaukaskattur (innskattur) af   sameiginlegum byggingarframkvæmdum.

Vísað er til fundar með yður þann 22. maí sl., þar sem til umræðu var meðferð virðisaukaskatts af byggingarkostnaði við atvinnuhúsnæði hér í borg. Fram kom að 17 aðilar, þar af sumir sem ekki eru skráðir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt standa að byggingunni og er byggingarkostnaður sameiginlegur. Hefur endurskoðunarskrifstofa yðar umsjón með framkvæmdum og sér um skiptingu byggingarkostnaðar á einstaka byggingaraðila. Útbýr skrifstofan yfirlitsblöð um þann kostnað sem til fellur á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskatts þar sem m.a. kemur fram liðurinn

„innskattur til frádráttar í rekstri“

Eftir athugun þessa máls hefur ríkisskattstjóri komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að samþykkja að skráðir byggingaraðilar, þ.m.t. þeir sem fengið hafa eða geta fengið sérstaka eða frjálsa skráningu skv. reglugerð nr. 577/1989, reikni sér innskatt á grundvelli fyrrgreindra yfirlitsblaða. Standa skýr lagafyrirmæli þar í vegi, sbr. lokamálsgrein 20. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. og ákvæði í reglugerð nr. 501/1989 og l. gr. reglugerðar nr. 81/1991, en samkvæmt þessum ákvæðum skal færsla á innskatti í bókhaldi skattskylds aðila byggjast á frumritum sölureikninga þar sem m.a. sé tilgreindur kaupandi vöru eða skattskyldrar þjónustu.

Þess skal getið að ríkisskattstjóri telur, með vísan til meginreglu 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga, að skráning skv. 5. gr. laganna geti m.a. tekið til félagasamtaka, formlegra sem óformlegra, er annast sameiginleg innkaup fyrir félagsmenn án þess að starfsemin teljist í atvinnuskyni eins og það hugtak er notað í l. tölul. l. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt þessu er það álit ríkisskattstjóra að samtök hinna 17 byggingaraðila eigi kost á skráningu skv. 5. gr. með þeim verkunum að þau fái rétt til endurgreiðslu innskatts vegna framkvæmda en geri sérhverjum hinna 17 félagsmanna reikning með virðisaukaskatti fyrir þeirra hlut.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.