Dagsetning                       Tilvísun
19. júní 1995                            685/95

 

Virðisaukaskattur – kaup á kennslusvifflugvél.

Vísað er til bréfs yðar, mótteknu hjá ríkisskattstjóra dags. 26. apríl 1995, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort S beri skylda til að greiða virðisaukaskatt af nýrri tveggja sæta kennslusvifflugvél sem félagið hefur fest kaup á til kennslu.

Í 1. mgr. 12. grein laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum eru tiltekin þau viðskipti sem teljast ekki til skattskyldrar veltu. Samkvæmt 6. tölulið 1. mgr. fyrrnefndrar greinar telst sala og útleiga loftfara og skipa ekki til skattskyldrar veltu. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta og einkaloftfara. Orðin skemmtibátur og einkaloftför í ákvæðinu verður að túlka saman. Því teljast þau loftför sem notuð eru í frístundum eða í íþróttastarfsemi sem einka- og skemmtiloftför.

Undanþágur skattalaga ber að skýra þröngt og því hefur umrædd undanþága verið túlkuð svo að hún taki einungis til atvinnuloftfara. Atvinnuloftför teljist þau loftför sem skráð eru sem atvinnuloftför í loftfaraskrá Flugmálastjórnar enda sé rekstraraðili einnig handhafi tilskilinna leyfa til atvinnuflugs, þ.e. flugrekstrarleyfi sbr. reglugerð nr. 381/1989 um flugrekstur.

Svifflugvélar sem nýttar eru til svifflugkennslu án þess að vera skráðar sem atvinnuloftför og eigandi þeirra er ekki handhafi flugrekstrarleyfis geta ekki talist atvinnuloftför. Þar sem S telst íþróttafélag og ekki hefur verið sýnt fram á að flugkennsla félagsins sé rekin í atvinnuskyni verður ekki séð að undanþága 6. töluliðar 1. mgr. 12. greinar virðisaukaskattslaganna geti átt við kaup félagsins á nýrri kennslusvifflugvél.

Einnig má benda á að í greinargerð með virðisaukaskattslögunum segir um 6. tl. 1. mgr. 12. greinar: “Þó að sérreglu þessari væri ekki fyrir að fara yrði engin uppsöfnun virðisaukaskatts í fjárfestingu af þessu tagi þar sem draga mætti hann frá sem innskatt. Ákvæðið kemur hins vegar í veg fyrir fjárbindingu um langan eða skamman tíma vegna skattsins sem getur verið mjög kostnaðarsöm þar sem hér er oft á tíðum um verulega fjárfestingu að ræða. Hliðstætt undanþáguákvæði er í gildandi söluskattslöggjöf og hefur upptaka virðisaukaskattsins því enga breytingu í för með sér að þessu leyti”.

Hugmynd löggjafans með undanþágunni virðist því hafa átt fyrst og fremst við um viðskipti með stærri og dýrari flugvélar sem notaðar eru í atvinnuskyni og þá einkum kaup þeirra aðila sem eru virðisaukaskattsskyldir. Auk þess má benda á túlkun sambærilegs undanþáguákvæðis í dönsku virðisaukaskattalögunum sem rennur stoðum undir þessa niður­stöðu og að orðalag undanþáguákvæðis gömlu söluskattslaganna vegna viðhalds skipa og loftfara þar sem skemmtibátar og sportloftför féllu utan undanþágunnar.

Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að umrætt loftfar falli ekki undir undanþáguákvæði 6. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaganna.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir