Dagsetning Tilvísun
23. des. 1992 434/92
Virðisaukaskattur – kaup og sala notaðra muna.
Með bréfi yðar, dags. 9. febrúar 1990, er óskað eftir álit ríkisskattstjóra á því hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af:
- Kaupum á notaðri vöru til endursölu.
- a) Söluandvirði bifreiða þegar virðisaukaskattur við kaup bifreiða hefur verið nýttur sem innskattur.
b) Söluandvirði bifreiða þegar virðisaukaskattur við kaup bifreiða hefur ekki verið nýttur sem innskattur.
- Umboðssölu á notaðri vöru?
- Af vörum sem keyptar eru á uppboði og seldar aftur yfir eða undir innkaupsverði.
Um l.
Skv. 11 gr. laga nr. 51/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, á skráður aðili að innheimta virðisaukaskatt af sölu notaðra muna. Varðandi þetta atriði er að öðru leyti vísað í hjálagt bréf ríkisskattstjóra nr. 22/90 um virðisaukaskatt af sölu notaðra muna.
Um 2.
Sala á notuðum bifreiðum í atvinnuskyni er virðisaukaskattskyld starfsemi. Ber því aðilum sem hafa með höndum þá starfsemi að kaupa og selja notaðar bifreiðar að innheimta virðisaukaskatt af heildarsöluandvirði þeirra. Almenna reglan er sú að bifreið er seld með virðisaukaskatti á heildarandvirði hennar.
Þó er við sölu fólksbifreiðar, sem keypt er til endursölu í atvinnuskyni, heimilt að leggja virðisaukaskatt á mismun söluverðs og kaupverðs, þegar virðisaukaskattur kemur ekki fram á reikningi við söluna til endurseljanda, sbr. 10 gr. laga nr. 50/l988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Sé þessi aðferð notuð má endurseljandi ekki tilgreina fjárhæð virðisaukaskatts á sölureikningi. Athuga ber að þetta heimildarákvæði á eingöngu við um sölu á fólksbifreiðum. Engin heimild er til að nota þessa aðferð við sölu annars konar bifreiða eða notaðra lausafjármuna.
Um innskatt fer eftir almennum ákvæðum virðisaukaskattslaga. Sá sem kaupir bifreið til endursölu getur talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hann greiðir seljanda við kaupin, þ.e. þann virðisaukaskatt sem kemur fram á reikningi seljanda. Sé um að ræða bifreið þar sem seljandi hefði getað talið virðisaukaskatt af kaupunum til innskatts skal hann innheimta virðisaukaskatt af söluandvirði jafnvel þótt þessi bifreið hafi verið keypt áður en lög um virðisaukaskatt tóku gildi. Skal hann þá gefa út fullgildan reikning vegna sölunnar og getur kaupandi ef hann er skráður aðili nýtt sér hann sem innskatt. Sama gildir ef aðili flytur inn bifreið til endursölu en þá er innskatturinn sá virðisaukaskattur sem greiddur er í tolli.
Þegar bifreið er keypt til endursölu af óskráðum aðila, t.d. einstaklingi, kemur enginn virðisaukaskattur fram á reikningi seljanda – skv. 22. gr. laga um virðisaukaskatt er óskráðum aðila óheimilt að tilgreina á reikningi eða gefa á annan hátt til kynna á honum að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.
Þess ber að geta að virðisaukaskattskyldir aðilar skulu ekki innheimta virðisaukaskatt af sölu fólksbifreiða enda sé starfsemi þeirra ekki fólgin í sölu eða leigu bifreiða.
Um 3.
Þegar um umsýslu- eða umboðssölu er að ræða reiknast virðisaukaskattur af heildarandvirði hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð skv. 7 gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þrátt fyrir framangreint má nota reglur um sölumiðlun þegar verið er að selja notaða muni í umboðssölu sbr. hjálagt bréf ríkisskattstjóra nr. 22/90.
Um 4.
Hér er um að ræða virðisaukaskattskylda sölu. Um innskatt og útskatt fer eftir almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt, þ. e. innheimta skal virðisaukaskatt af heildarandvirði hins selda og gefa út reikninga sem fullnægja kröfum laga um virðisaukaskatt. Til að heimilt sé að nýta frádráttarbæran innskatt verður að vera fyrir hendi frumrit fullnægjandi sölureiknings vegna innkaupanna.
Beðist er velvirðingar á töfum vegna svars á fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Hjálagt: Bréf nr. 22/90