Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             332/91

 

Virðisaukaskattur – kaup starfsmannabifreiðar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. l. ágúst sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort fyrirtæki, sem eingöngu hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi, sé heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af kaupum 12 manna fólksflutningabifreiðar sem fyrirhugað er að nota til flutnings starfsmanna milli vinnustaðar og heimila þeirra, en fyrirtækið er staðsett úr alfaraleið. Sömuleiðis er ætlunin að nota bifreiðina til flutnings starfsmanna milli vinnusvæða fyrirtækisins.

Til svars erindinu skal tekið fram, að samkvæmt l. mgr. 9. gr. reglug. nr. 81/1991, um innskatt, er óheimilt að telja til innskatts öflun eða leigu hópbifreiða (bifreiða sem ætlaðar eru til flutnings fleiri en átta farþega) nema þær séu eingöngu notaðar vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Ríkisskattstjóri lítur svo á að í ákvæðinu felist að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af hópbifreið sem einnig er notuð vegna sölu skattaðila á þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti eða til einkanota eiganda eða starfsmanna fyrirtækisins eða annarra nota sem valda því að fyrirtækið nýtur ekki frádráttarréttar.

Skráður aðili nýtur ekki frádráttarréttar vegna aðfanga er varða hlunnindi til eiganda eða starfsmanna, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt. Akstur starfsmanna milli heimila og vinnustaðar eru að áliti ríkisskattstjóra hlunnindi í skilningi þessa lagaákvæðis. Flutningur starfsfólks milli vinnusvæða fyrirtækis telst hins vegar varða sölu fyrirtækisins á vöru og skattskyldri þjónustu.

Samkvæmt framansögðu lítur ríkisskattstjóri svo á að fyrirtækið hafi ekki rétt til þess að telja til innskatts virðisaukaskatt af kaupum hópbifreiðar til þeirra nota sem um ræðir í bréfi yðar.

Virðisaukaskattur af rekstri bifreiðarinnar telst til innskatt að því leyti sem hann varðar sölu fyrirtækisins á skattskyldri vöru og þjónustu, sbr. nánar 2.-6. gr. reglugerðar nr. 81/1991.

Ekki er innheimtur virðisaukaskattur við sölu bifreiðar sem ekki hefur verið heimilt að draga virðisaukaskatt vegna kaupa frá sem innskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.