Dagsetning                       Tilvísun
30. apríl 1993                            473/93

 

Virðisaukaskattur – kennslustarfsemi – dáleiðsla

Vísað er til bréfs yðar, dags.13. apríl 1993, þar sem óskað álits ríkisskattstjóra hvort kennsla á sviði dáleiðslu sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. tl. 2. gr. laga nr. 50/l988.

Fram kemur í bréfi yðar að fyrirhugað sé að stofna sérskóla á sviði dáleiðslu og fram að þessu hafi ekki verið boðið upp á kennslu á sviði dáleiðslu hér á landi. Jafnframt segir í bréfi yðar að námið yrði metið til jafns við samsvarandi nám í sérskólum og háskólum erlendis og að kennslan felist m.a. í eftirtöldum greinum: Sálfræði, líffærafræði, samtalstækni og í notkun dáleiðslu í klínískri meðferð: Einnig kemur fram í bréfi yðar að þeir sem kæmu til með að nota sér skólann yrðu aðilar innan heilbrigðisstéttarinnar s.s. sálfræðingar, félagsfræðingar, hjúkrunarfræðingar o.fl.

Ríkisskattsstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af námskeiðum og kennslustarfsemi. Í 2. kafla leiðbeininganna er fjallað um þau námskeið og kennslustarfsemi sem eru undanþegin virðisaukaskatti.

Það er álit ríkisskattstjóra að kennslustarfsemi sú sem um ræðir í bréfi yðar verði ekki talin til venjulegrar skóla- og háskólastarfsemi né til starfsemi sem unnið hafi sér fastan og almennan sess í hinu almenna skólakerfi. Einnig verður ekki séð að starfsemin feli í sér endurmenntun eða faglega menntun sem miði að því að viðhalda eða auka þekkingu eingöngu vegna atvinnu og ekki sé heldur um viðurkenningu á starfsréttindum að ræða. Það er því álit ríkisskattstjóra starfsemi sú sem lýst er í bréfi falli ekki undir undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga. Að öðru leyti er vísað til leiðbeininganna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Bjarnfreður Ólafsson.

 

Hjálagt:           Leiðbeiningar um virðisaukaskatt af námskeiðum og kennslustarfsemi.