Dagsetning                       Tilvísun
17. september 1993                            538/93

 

Virðisaukaskattur – kennslustarfsemi – dáleiðsla

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. maí 1993 þar sem óskað er endurálits ríkisskattstjóra (áður svarað með bréfi nr. 173/92) á því hvort að kennsla í dáleiðslu og skyldum greinum sé undanþegin virðisaukaskattsskyldu skv. 3. tl. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Fram kemur í bréfi yðar að í skólanum séu valin til kennslu fög sem kennd eru í mismunandi greinum Háskólans auk annarra greina sem tengjast dáleiðslumeðferðum. Væntanlegir nemendur eru sagðir vera fólk úr heilbrigðisstéttunum s.s. sálfræðingar, félagsfræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar ofl. Fyrir nemendurna eru námskeið viðbót við þá menntun sem þeir hafa þegar yfir að ráða. Með námi þessu er ætlunin að styrkja fyrri menntun og kynna þær nýjungar sem eru að ryðja sér til rúms hvað varðar dáleiðslumeðferðir á hinum ýmsu sviðum heilsugæslunnar.

Ríkisskattstjóri leitaði álits landlæknis og telur hann að forstöðumaður Dáleiðsluskóla Íslands hafi ekki neina grunnmenntun í heilbrigðisfagi né sálarfræðum á háskólastigi. Dáleiðsla sé aðeins eitt meðferðaform. Að mati landlæknis á það eingöngu að vera í höndum þeirra sem hafa þá grunnmenntun sem að ofan er nefnd að að standa fyrir slíkri kennslu.

Ríkisskattstjóri telur með hliðsjón af framansögðu að þarna sé ekki í boði fagleg menntun fyrir starfsfólk heilbrigðiskerfisins og af þeim sökum sé slík kennsla ekki undanþegin virðisaukaskattsskyldu.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson