Dagsetning                       Tilvísun
3. júlí 1997                            806/97

 

Virðisaukaskattur- Keppnisbifreið/auglýsingabifreið.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. mars. 1997, þar sem þér tilkynnið ríkisskattstjóra að þér munið breyta bifreið yðar í virðisaukaskattsbifreið og setja á hana rauðhvít skráningarmerki ef embættið gerir ekki athugasemdir við það.

Í bréfi yðar segir þér m.a.

“Bifreiðin xx(breytt hér) sem er keppnisbifreið/auglýsingabifreið er í eigu hlutafélagsins X(breytt hér). Þar af leiðir að allur kostnaður og tekjur af henni eru færðar í bókhald fyrirtækisins. Bifreiðin er rekin sem auglýsing innan fyrirtækisins til dæmis í stað flettiskiltis, auglýsinga í símaskrá og annarra auglýsingamiðla sem bera virðisaukaskatt. Tekjur sem innheimtar eru á bifreiðina vegna auglýsinga eru með virðisaukaskatti.”

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að sérreglur gilda um innskatt af öðrum ökutækjum en fólksbifreiðum, sbr. 6. tölul. 2. gr. sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu þar til greindra ökutækja, þ.á m. sendibifreiða með leyfðri heildarþyngd 5000 kg eða minna, nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum eða skattskyldri þjónustu. Sérstaklega er tekið fram að ökutæki sé ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota. Í 2. mgr. sama ákvæðis kemur síðan fram að skilyrði þess að telja megi til innskatts virðisaukaskatt af öflun sendibifreiða sé að hún sé auðkennd skráningarmerkjum af því tagi sem greinir í reglugerð nr. 523/1988, um skráningu ökutækja.

Eins og fram kemur í bréfi yðar er bifreiðin annars vegar notuð sem keppnisbifreið og hins vegar sem auglýsingabifreið. Af framansögðu þykir ljóst að bifreiðin er ekki eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi (auglýsingarsala og tómstundar-starfsemi/eigin not) og er yður því ekki heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun hennar til innskatts.

Hins vegar skal tekið fram að þar sem auglýsingarbirting á bifreið er virðisaukaskattsskyld auglýsingaþjónusta, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, er yður heimilt að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem fyrirtækið greiðir vegna ásetningar auglýsinganna og annars kostnaðar sem tengist auglýsingasölunni, þ.m.t. viðgerðir á lakkskemmdum sem beinlínis stafa af álímdum auglýsingum.

Hvað varðar útreikning innskatts vegna reksturs bifreiðarinnar þá er tekið fram í lokamálsgrein 9. gr. reglugerðarinnar að ákvæði 2-6. gr. gildi um þann útreikning. Í þessu sambandi skal bent á ákvæði 6. gr. reglugerðarinnar en þar segir að ef innkaup skattaðila eru bæði vegna sölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu og til einkanota eða annarra nota, sem ekki varða rekstur hans, megi telja virðisaukaskatt af slíkum innkaupum til innskatts að því leyti sem þau teljast varða virðisaukaskatts-skyldan rekstur. Jafnframt segir að skattstjóri skuli taka mið af þeim reglum sem og þeirri framkvæmd sem mótast hafi við tekjuskattsálagningu þegar hann leggur mat á hvort innkaupum sé réttilega skipt milli skattskylds rekstur og einkanota. Af bréfi yðar má ráða að kostnaður við rekstur bifreiðarinnar varðar eingöngu eigin not og er yður því óheimilt að telja virðisaukaskatt vegna hans til innskatts, þ.m.t. bensínkostnaður, viðgerðir, viðhald o.fl.

Að lokum skal tekið fram að athugasemdir yðar um annan aðila í sambærilegri stöðu verða kannaðar af skattyfirvöldum.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir