Dagsetning                       Tilvísun
23. september 1992                            424/92

 

Virðisaukaskattur – kerfisbundin efnisorðaskrá.

Hinn 15. september sl. var leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort kerfisbundin efnisorðaskrá fyrir bókasöfn væri undanþegin virðisaukaskatti. Markmið skrárinnar er að stuðla að samræmi við notkun efnisorða við lyklun heimilda og greiða þannig m.a. fyrir samvinnu bókasafna og auðvelda notendum heimildaleitir. Skráin skiptist í tvo hluta, annars vegar í stafrófsraðaða framsetningu, sem er meginhluti skrárinnar, þar sem valorðum (efnisorðum sem notuð eru) og vikorðum (orðum sem vísað er frá, þ.e. samheitum eða samheitaígildum valorða) er skipað í eina stafrófsröð, og hins vegar í stigveldisskipta framsetningu, þar sem yfirheiti (víðasta heiti hvers efnissviðs) er raðað í stafrófsröð og stigveldisskipan sýnd með inndrætti.

Samkvæmt f-lið í kafla 4.3 í hjálögðum leiðbeiningum ríkisskattstjóra um útgáfustarfsemi frá 11. júní 1991 eru rit sem að meginefni eru skrár eða listar en ekki samfelldur texti, hvorki talinn vera tímarit né bók í skilningi undanþáguákvæða laganna og skulu þeir sem í atvinnuskyni selja eða afhenda slíka vöru innheimta og skila 24,5 % virðisaukaskatti af andvirði hennar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkiskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.

 

Hjál.: leiðbeiningar RSK um útgáfustarfsemi.