Dagsetning Tilvísun
23. janúar 1996 713/96
Virðisaukaskattur – Kvikmyndagerð – styrkir o.fl.
Vísað er til bréfs yðar til skattstjórans í Reykjavík, dags. 13. september 1995 sem framsent var ríkisskattstjóra 4. október 1995. Í bréfinu eru ýmsar spurningar um innheimtu virðisaukaskatts af kvikmyndagerð.
Í bréfi yðar er vikið að ýmsum álitaefnum varðandi kvikmyndagerð en þó sérstaklega að því hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af mismunandi fjármögnun kvikmyndar. Enn fremur eru settar fram ýmsar staðhæfingar hvað varðar innheimtu virðisaukaskatts og verður erindi yðar svarað á þann veg að einungis er tekið á þeim vandamálum sem virðast ekki vera ljós hvað varðar innheimtu virðisaukaskatts.
Kvikmyndagerð sem stunduð er í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sama gildir um gerð heimildarmynda fyrir opinbera aðila, einkafyrirtæki eða félagasamtök svo og gerð auglýsingamynda.
Kvikmyndafyrirtæki skal innheimta virðisaukaskatt af skattskyldum tekjum sínum, svo sem af endurgjaldi fyrir kvikmyndaþjónustu, greiðslu fyrir sýningu kvikmyndar í sjónvarpi og sölu kvikmyndar til myndbandadreifanda eða kvikmyndahúss. Sama gildir um skilyrta styrki, þ.e. styrkir sem eru í raun greiðsla fyrir væntanlega framleiðslu eru virðisaukaskattsskyldir. Aftur á móti ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af styrkjum sem veittir eru án skilyrða.
Til frekari upplýsinga skal hins vegar tekið fram að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum er undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.
Í bréfi yðar er spurt hvort einkahlutafélagi beri að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni þegar þjónustan er fólgin í kvikmyndaleikstjórn, tónsmíðum, handritsgerð og sambærilegri starfsemi. Í þessu sambandi skal tekið fram að starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Undanþáguákvæðið tekur m.a. til höfundar kvikmyndahandrits og leikstjóra, svo og höfunda leikmyndar; þó er samning handrits að auglýsingamynd, leikstjórn hennar o.s.frv. skattskyld til virðisaukaskatts (auglýsingaþjónusta). Störf flytjenda (leikara, dansara, tónlistarmanna o.s.frv.) sem fram koma í kvikmynd, þ.á m. auglýsingamynd, eru einnig undanþegin á grundvelli ákvæðisins. Tekið skal fram að undanþágan nær eingöngu til sjálfstæðrar sölu á þeirri þjónustu sem undir undanþáguna fellur en ekki til endursölu á slíkri þjónustu þegar hún er veitt sem liður í skattskyldri sölu svo sem kvikmynd. Í þessu sambandi skiptir ekki máli þótt hin listræna hlið verksins sé í slíku tilviki aðgreind frá öðrum hluta þess.
Félagasamtök sem hafa ekki með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi geta ekki fengið virðisaukaskatt af aðföngum endurgreiddan. Jafnframt skal tekið fram að frádráttarheimild félagasamtaka sem undanþegin eru tekju- og eignarskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981 og stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi er takmörkuð, þ.e. þeir mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Afrit sent: Skattstjóranum í Reykjavík.