Dagsetning                       Tilvísun
31. des. 1992                            442/92

 

Virðisaukaskattur – lagning ljósleiðara.

Vísað er til símbréfs yðar, dags. 23. sept. sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig meðhöndla eigi virðisaukaskatt af lagningu ljósleiðara í íslenskri landhelgi ásamt því hvort og þá með hvaða hætti erlendir aðilar sem kaupa aðgang að ljósleiðaranum fái endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þeir greiða hér á landi.

Framkvæmdaraðilanum (S), þ.e. þeim sem leggur ljósleiðarann (strenginn) hér við land (þ.e. innan 12 sjómílna landhelgi), ber að skrá sig inn á virðisaukaskattsskrá og innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem hann hefur með höndum hér á landi. Jafnframt á hann rétt á að fá endurgreiddan allan þann virðisaukaskatt (innskatt) sem hann greiðir af aðföngum sem hann kaupir hér á landi skv. almennum reglum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (vskl.).

Framkvæmdaraðilinn vinnur verkið fyrir C, sem er félag meðeigenda í strengnum. Innheimta ber virðisaukaskatt af þessari sölu. C verður að skrá sig hér á landi eða þá umboðsmaður fyrir hönd þess. C selur síðan erlendum og innlendum meðeigendum aðgang að strengnum.

Sala á aðgangi að strengnum er virðisaukaskattsskyld og ber að innheimta virðisaukaskatt af slíkri þjónustu ef hún er veitt hér á landi. Aftur á móti er litið svo á að sú þjónusta sem C selur hinum erlendu meðeigendum sé veitt erlendis þar sem aðgangur að strengnum er bæði veittur og nýttur erlendis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum.

Tekið skal fram að S ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem það selur Póst- og símamálastofnuninni. Samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga á svo Póst- og símamálastofnunin rétt á innskattsfrádrætti af þeirri þjónustu sem hún kaupir af S enda varða slík aðföng eingöngu sölu á virðisaukaskattskyldum vörum og þjónustu Póst- og símamálastofnunarinnar.

.

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.