Dagsetning                       Tilvísun
14. apríl 1990                              45/90

 

Virðisaukaskattur – leiga á hlutabréfi.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. desember 1989, þar sem m.a. segir:

„Málið varðar leigu á hlutabréfi í sendibílastöð. Til að fá að aka á sendibílastöðvum þurfa bílstjórar að kaupa hlutabréf í viðkomandi stöð. Önnur leið til að fá að aka fyrir slíkar stöðvar er að leigja bréf af bílstjóra sem á hlutabréf í stöð og ekur ekki sjálfur út á bréfið. Spurt er: Ber að leggja virðisaukaskatt á leigugjald það sem leigusali innheimtir af leigutaka fyrir leiguna á hlutabréfi í viðkomandi sendibílastöð?

– Er mögulegt að líta á umræddar leigutekjur sem arð af hlutabréfaeign og fara með þær gagnvart virðisaukaskatti samkvæmt því?“

Til svars erindinu skal tekið fram að sala eða framsal í atvinnuskyni á hvers konar fjárhagslegum réttindum er virðisaukaskattsskyld, nema talið verði að eitthvert undanþáguákvæða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 taki til þeirra. Þau viðskipti sem lýst er í bréfi yðar fela í sér sölu á rétti til afgreiðslu á bifreiðastöð og falla að áliti ríkisskattstjóra undir skattskyldusvið laga nr. 50/1988. Ekki er hægt að fallast á að líta megi á greiðslurnar sem arð af hlutabréfaeign.

Seljanda umræddra réttinda ber að tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988

– einnig þótt hann hafi ekki aðra skattskylda starfsemi með höndum – enda nemi samtals skattskyld sala hans a.m.k. 155.800 kr. á ári (vísitala 1. janúar 1990).

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.