Dagsetning                       Tilvísun
12. sept. 1991                             346/91

 

Virðisaukaskattur – leiga á rekstri kvikmyndahúss.

Með bréfi yðar, dags. 23. apríl 1990, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort svonefnt verktakagjald og álag á verktakagjald sem rekstraraðili kvikmyndahúss í eigu yðar greiðir yður sé skattskylt til virðisaukaskatts. Í bréfi yðar segir m.a. að verktakagjald þetta komi í meginatriðum í stað húsaleigu, en verðmæti lausafjár sem samningur aðila taki til sé einungis um 6,4% af heildarverðmæti fasteignar.

Ríkisskattstjóri hefur aflað sér ljósrits af samningi aðila, dags. 30. desember 1989. Helstu atriði samningsins, sem nefndur er verktakasamningur, eru þau að verktaki (rekstraraðili) tekur að sér allan rekstur kvikmyndahússins og leggur í því sambandi fram alla vinnu og rekstrarvörur til daglegs reksturs. Hann hefur frjálsan aðgang að öllum viðskiptasamböndum kvikmyndahússins án sérstakrar greiðslu og heldur verkkaupi (eigandi kvikmyndahússins) þeim eftir að samningurinn fellur úr gildi. Kvikmyndahúsið á rétt á þeim viðskiptasamböndum sem verktaki aflar sér á samningstímanum án sérstakrar greiðslu. Verktaki fær í sinn hlut allar tekjur af aðgöngumiðasölu, sælgætissölu og greiðslur fyrir önnur not kvikmyndahússins. Hann greiðir, auk rekstrarkostnaðar, sérstaka þóknun til verkkaupa (verktakagjald) sem er ákveðin fjárhæð á mánuði. Álag reiknast á verktakagjald og er það háð aðsókn í sérhverjum mánuði.

Ríkisskattstjóri telur felast í samningi aðila að rekstraraðili tekur rekstur kvikmyndahússins á leigu og ber á honum fulla fjárhagslega ábyrgð. Greiðslur hans til eiganda hússins eru í eðli sínu endurgjald fyrir afnot af annars vegar fasteign og hins vegar lausafjármunum og öðru verðmæti.

Fasteignaleiga er undanþegin virðisaukaskatti en leiga á lausafé og öðrum efnislegum og óefnislegum verðmætum er skattskyld. Ríkisskattstjóri lítur svo á að ef ekki er umsamið sérstakt endurgjald fyrir lausafjármuni sem leigðir eru ásamt fasteign verði að skipta leigugreiðslunni í skattskyldan og undanþeginn þátt. Skal hinn skattskyldi þáttur miðaður við verðmæti lausafjármuna af heildarverðmæti hins leigða.

Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu lítur ríkisskattstjóri svo á að þegar rekstur er leigður í heild eða að hluta geti talist eðlilegur þáttur í leigu atvinnuhúsnæðis í því sambandi að láta leigutaka í té innan ákveðinna marka notkunarrétt á lausafjármunum sem notaðir eru í tengslum við fasteignina. Leiðir það til þess að leigan í heild telst undanþegin virðisaukaskatti. Skilyrði þessa eru:

(1)        Að samningur taki eingöngu til lausafjármuna sem teljist eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í notkun viðkomandi fasteignar, þ.e. þeirrar atvinnustarfsemi sem þar er rekin. Dæmi: Sýningarvélar í húsi sem sérstaklega er hannað til kvikmyndasýninga, frystivélar í frystihúsi og tæki og áhöld á bújörð.

(2)        Að ekki sé í leigusamningnum áskilið sérstakt endurgjald fyrir notkunarrétt lausafjármunanna.

Samningur yðar við rekstraraðila kvikmyndahússins virðist fullnægja þessum skilyrðum.

Athygli skal vakin á því að sé leiga undanþegin virðisaukaskatti hefur leigusali ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum sínum, sbr. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Sá sem leigir skráðum aðila atvinnuhúsnæði getur hins vegar fengið frjálsa skráningu, sbr. reglugerð nr. 577/1989. Frjáls skráning leiðir til þess að leigusali skal innheimta og skila virðisaukaskatti af þeim leigugreiðslum sem skráningin tekur til eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga, en hefur rétt til að telja virðisaukaskatt af kostnaði vegna eignarinnar til innskatts.

Sé um að ræða leigu á fasteign í sambandi við leigu á rekstri tekur frjáls skráning einnig til lausafjármuna sem leigðir eru með fasteign, sbr. að framan. Skal leigusali þá innheimta virðisaukaskatt af heildargreiðslum sem hann krefur rekstraraðila (leigutaka) um.

Frjáls skráning getur aldrei verið til skemmri tíma en tveggja ára. Sé frjáls skráning afskráð að þeim tíma liðnum munu skattyfirvöld krefjast leiðréttingar (bakfærslu) á innskatti sem aðili hefur notið vegna kaupa eða viðhalds fasteignar eða lausafjármunar, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 81/1991.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.