Dagsetning                       Tilvísun
6. mars 1992                            393/92

 

Virðisaukaskattur – leiga sýningar- og söluaðstöðu.

Að gefnu tilefni tekur ríkisskattstjóri fram að sú starfsemi fyrirtækis yðar að leigja út rými (bása) til vörukynningar og sölustarfsemi er talin virðisaukaskattsskyld aðstöðusala en ekki fasteignaleiga. Byggist þetta á því að þér látið viðskiptamönnum yðar ekki í té nein umráð yfir húsnæði sem jafnað verður við almenn réttindi leigutaka að fasteign. Yður ber því að innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi sem einstakir viðskiptamenn yðar greiða fyrir aðstöðuna, svo og vegna kaupa á annarri skattskyldri þjónustu og vörum. Sala á efni og vinnu við uppsetningu sýningarbása o.fl. er skattskyld. Aðgangseyrir, sem almenningur kann að vera krafinn um að sýningar- eða sölusvæði, er jafnframt skattskyldur.

Ríkisskattstjóri minnir á bréf embættisins til yðar, dags. 25. apríl 1990, og hvetur yður til að kynna viðskiptamönnum yðar efni þess. Tekið skal fram að ríkisskattstjóri hefur mótað þá stefnu að veita ekki frekari undanþágur frá sjóðvélaskyldu þegar selt er í atvinnuskyni á torgmarkaði.

 

Virðingarfyllst,

f.h ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.