Dagsetning Tilvísun
14. jan. 1991 199/91
Virðisaukaskattur – leikmyndagerð.
Ríkisskattstjóri hefur 28. febrúar sl. móttekið bréf yðar þar sem gerð er grein fyrir starfsemi yðar með tilliti til laga um virðisaukaskatt.
Fram kemur að þér hannið og búið til leikmuni, einkum leikbrúður, grímur og „hreyfistyttur“, m.a. fyrir sjónvarp, leikhús og auglýsingastofur. Einnig nefnið þér vaxstyttur til skreytingar á skemmtistað sem dæmi um verkefni yðar. Í bréfinu segir að hver munur sé einstakur og sérstakur og að þér hafið fullt listrænt frelsi við smíð hans.
Að áliti ríkisskattstjóra er starfsemi höfunda búninga og gerva, þ.m.t. „hreyfistyttna“, til notkunar í leikhúsum og við önnur tækifæri virðisaukaskattsskyld, enda sé sala þeirra á skattskyldri vöru eða þjónustu eigi lægri en 172.300 kr. á ári (miðað við vísitölu 1. jan. 1991). Listamenn eru undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu á eigin listaverkum sem falla í tiltekin tollskrárnúmer, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt. Sala sumra verka yðar virðist undanþegin á þessum grundvelli, einkum styttna sem eingöngu eru til skreytingar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson