Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             210/91

 

Virðisaukaskattur – lögmenn.

Með bréfi yðar, dags. 20. desember 1990, er þess farið á leit við ríkisskattstjóra að framlengdur verði frestur til að skipta endurgjaldi fyrir mál, sem til uppgjörs koma eftir áramótin 1989/90 og sem að hluta til hefur verið unnið að fyrir þau áramót, í annars vegar stofn til söluskatts og hins vegar stofn til virðisaukaskatts, sbr. bréf ríkisskattstjóra frá 17. janúar og 25. júní 1990.

Eins og fram kom í bréfi ríkisskattstjóra frá 17. janúar 1990 ber almennt að skila virðisaukaskatti þegar aðili hefur innt af hendi (afhent) þjónustuna, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988. Þjónustusala ber þannig að reikna og innheimta virðisaukaskatt og gera reikning fyrir honum í síðasta lagi í þeim mánuði þegar hann hefur endanlega afhent þjónustu sína (afhendingarreglan). Þetta tímamark fer síðan nánar eftir eðli þjónustunnar og þeim samningum sem um hana hafa verið gerðir eða venjum sem um hana gilda. Afhendingarreglan felur í sér að reikna skal virðisaukaskatt af heildarþóknun lögmanns vegna mála sem í gangi voru um áramótin 1989/1990 og lokið er eftir þann tíma.

Við upptöku sérstaks söluskatts í september 1987 veitti fjármálaráðuneytið lögmönnum sérstakan frest í eitt ár til að ljúka uppgjöri mála sem þá voru í gangi. Ríkisskattstjóri getur ekki samþykkt frekari frávik frá þeim almennu reglum virðisaukaskattslaga, sem gerð er grein fyrir hér að framan, en fordæmi eru fyrir vegna annarra kerfisbreytinga í skattamálum. Því er erindi yðar synjað.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.