Dagsetning                       Tilvísun
31. október 1995                            701/95

 

Virðisaukaskattur – markaskráning

Vísað er til bréfs yðar dags. 27. september 1995, þar sem spurst er fyrir um hvort innheimta beri virðisaukaskatt af markaskráningu.

Í bréfi yðar segir m.a: “Með markaskráningu er átt við að hver bóndi sem á skrásett mark greiðir fyrir skráningu þess og fær eitt eintak markaskrár fyrir hvert mark sem hann skráir.”

Samkvæmt 63. gr. laga nr. 6/1986, um afréttarmál, fjallskil o.fl., er bændum skylt að hafa mörk á búfé sínu. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 579/1989, um mörk, markaskrár o.fl., er markeiganda skylt að tilkynna markaverði mark sitt til skráningar í markaskrá fjallskilaumdæmis og greiða fyrir það gjald sem stjórn þess ákveður. Í 9. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um að stjórn hvers fjallskilaumdæmis skuli sjá um útgáfu á markaskrá.

Markaskráning og útgáfa markaskrár er lögboðin starfsemi sbr. ofanritað og þeir sem lögin taka til eiga ekki kost á að uppfylla þessa lagaskyldu sína annars staðar með sömu réttaráhrifum. Með vísan til þessa telur ríkisskattstjóri að umrædd starf-semi sé ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af þessu leiðir að stjórn fjallskilaumdæmis ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af markaskráningu og útgáfu markaskrár.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir