Dagsetning                       Tilvísun
18. júlí 1997                            812/97

 

Virðisaukaskattur – matsstörf – örorkumat

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. júní sl., til skattstjórans í Reykjavík sem framsent var ríkisskattstjóra með bréfi dags. 2. júlí sl. Í bréfinu er spurt um hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af þjónustu lögfræðinga og lækna við mat í slysamálum vegna miska- og örorkustigs.

Í bréfi yðar kemur fram að þegar tjónþolar sætti sig ekki við niðurstöðu Örorkunefndar varðandi miska- og örorkustig þá óski þeir eftir útnefningu matsmanna við dómstóla þar sem farið er fram á að miskastig og örorka sé metin að nýju. Í þessum tilvikum er verkbeiðandi ávallt hinn slasaði og algengast er að útnefndur sé einn læknir og einn lögfræðingur þó það sé ekki algilt. Í bréfinu kemur jafnframt fram:

“Mat á miskastigi hins slasaða felur einkum í sér að meta hverjar (sic) séu varanlegar afleiðingar slyssins á líkamlegt ástand viðkomandi. Þar reynir mjög á sérfræðikunnáttu þess læknis sem skipaður er matsmaður. Við mat á örorkustigi hans er leitast við að finna út hverjar séu afleiðingar slyssins á tekjuöflunarhæfi viðkomandi. Þar reynir meira á sérfræðikunnáttu þess lögfræðings sem skipaður er sem matsmaður. Auðvitað fléttast þetta allt saman og báðir matsmenn verða að meta og skrifa undir alla þætti matsins. Stundum eru auk þess tveir læknar útnefndir sem meta þá bæði atriðin.”

Mat á fjárhagslegri örorku.

Í bréfi ríkisskattstjóra dags. 17. janúar 1990 er fjallað um virðisaukaskatt af lögfræðiþjónustu. Í I. kafla bréfsins undir e-lið (bls. 2) segir orðrétt:

“Matsstörf eru almennt skattskyld, t.d. mat eignar til verðs vegna aðfarargerðar eða nauðungaruppboðs. Sama gildir um störf dómkvaddra matsmanna.

Ýmis matsstörf fyrir lánastofnanir og vátryggingarfélög kunna hins vegar að vera undanþegin virðisaukaskatti, sbr. hér að neðan.”

Síðan segir í a-lið sama bréfs (bls. 2):

“Jafnframt er þóknun fyrir mats- og virðingargerðir sem unnar eru fyrir lánastofnanir og vátryggingarfélög (auðk.hér) undanþegin skattskyldu þegar telja má gerðirnar eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starfsemi þessara aðila, þ.e. þegar um er að ræða mat á tjóni vegna ákvörðunar bótafjárhæðar (auðk. hér) eða mat á veðhæfni eignar.”

Samkvæmt þessu er það skilyrði fyrir undanþágu þessara matsgerða að unnið sé fyrir vátryggingarfélög eða að beiðni þeirra. Ekki verður talið að ákvæði 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga n. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði túlkað rýmra en að framan greinir. Er það því álit ríkisskattstjóra að innheimta beri virðisaukaskatt af þóknun fyrir matsgerðir sem unnar eru fyrir eða að beiðni tjónþola.

Mat á læknisfræðilegri örorku.

Hvað varðar mat á hinni læknisfræðilegu örorku þá er því til að svara að starfsemi lækna er undanþegin virðisaukaskatti skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Í þessu sambandi skiptir ekki máli fyrir hvern læknir vinnur enda sé vinnan unnin í krafti læknisfræðilegar menntunar hans og beinist að einstökum sjúklingi. Hér skiptir því megin máli að þjónusta læknisins er fólgin í mati á ástandi sjúklings. Það er því álit ríkisskattstjóra að lækni beri ekki að innheimta virðisaukaskatt þegar þjónusta hans er fólgin í mati á læknisfræðilegu ástandi tjónþola (læknisskoðun), hvort sem unnið er fyrir tjónþola sjálfan eða vátryggingarfélag.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

ValaValtýsdóttir.