Dagsetning                       Tilvísun
11. júní 1991                             278/91

 

Virðisaukaskattur – námskeið.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. ágúst sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum. Námskeiðunum, sem verða opin almenningi, er lýst þannig:

„… Fræðslan sem mun fara fram er öll innan sviðs heimspeki fornrar sem nýrrar svo og á sviði mannúðarsálfræðistefnunnar. … einnig talsvert af fræðslu þar sem trúarbragðaívafs gætir.“

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er rekstur skóla og menntastofnana undanþeginn virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla- og menntastofnana“ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.

Kennslustarfsemi, sem fellur ekki undir ofangreinda skilgreiningu, heldur felst t.d. í tómstundafræðslu þátttakenda, er virðisaukaskattsskyld. Þeim sem slíka starfsemi stunda í atvinnuskyni ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af námskeiðsgjöldum.

Það er álit ríkisskattstjóra að það námskeiðshald sem lýst er í bréfi yðar feli hvorki í sér starfsfræðslu (faglega menntun) né sambærilega kennslu og veitt er innan hins almenna skólakerfis. Samkvæmt því taka undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga ekki til þessarar starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.