Dagsetning Tilvísun
31. janúar 1992 383/92
Virðisaukaskattur – Námskeið í listþjálfun.
Með bréfi yðar, dags. 23. nóvember 1991, er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðum í listþjálfun (art therapy) sem þér standið fyrir. Í erindinu kemur fram að eftirfarandi felst í listþjálfun:
„Þátttakendur búa til ýmislegt úr gipsi, leir, teikna, mála o.s.frv., þátttakendur komast í snertingu við sköpunargáfu sína og verða frjórri, þátttakendur tjá sig í myndum og máli um tilfinningar sínar og hugsanir.“
Til svars erindinu skal tekið fram að rekstur skóla og menntastofnana er undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla og menntastofnana“ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun, og aðra kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt er tekið fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst sé eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls. Ekki nægi þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgrein í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu til þess að námskeiðsgjöld séu undanþegin.
Af því sem fram kemur í erindi yðar verður að áliti ríkisskattstjóra ekki séð að nám í listþjálfun hafi unnið sér þann sess í skólakerfinu að námskeið í þessari grein eða kennsla á vegum sjálfstætt starfandi aðila geti fallið undir undanþáguákvæði laganna. Samkvæmt því ber yður að tilkynna um starfsemi yðar til skráningar hjá skattstjóra og innheimta og skila virðisaukaskatti af námskeiðsgjöldum vegna námskeiða sem þér standið fyrir í atvinnuskyni og af endurgjaldi fyrir kennslu í greininni sem þér takið að yður sem verktaki. Athygli skal þó vakin á því að samkvæmt virðisaukaskattslögum er sá undanþeginn skráningarskyldu (skattskyldu) sem selur vöru eða skattskylda þjónustu fyrir minna en 183.000 kr. á ári (miðað við vísitölu l. jan. 1992).
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.