Dagsetning Tilvísun
14. apríl 1990 49/90
Virðisaukaskattur – nuddskóli.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. nóv. 1989, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiða- og skólagjöldum við nuddskóla yðar. Í bréfinu kemur fram að námsmatsnefnd menntamálaráðuneytisins hefur metið nám við skóla yðar til 10 stiga.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er starfsemi skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Með orðalaginu „starfsemi skóla og menntastofnana“ er átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér sess í almenna skólakerfinu. ·
Þegar hins vegar um er að ræða námskeið eða skólahald sem ekki felur í sér faglega menntun, heldur tómstundafræðslu þátttakenda o.þ.h., er starfsemin virðisaukaskattsskyld.
Með hliðsjón af framkomnum upplýsingum verður að álíta að nám við skóla yðar feli í sér fagmenntun í skilningi laga um virðisaukaskatt. Þar af leiðandi eru skólagjöld undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan nær ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfsemi skólans, þ.e. ekki er heimilt að telja til innskatts neinn virðisaukaskatt sem skólinn greiðir af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.