Dagsetning                       Tilvísun
24.10.2004                              15/04

 

Virðisaukaskattur – nytjaskógrækt – breytt not á nytjaskógræktarjörð

Ríkisskattstjóri hefur móttekið erindi yðar sem dagsett er 26. október 2004 og varðar Landssamtök skógarbænda. Í erindinu er vísað til minnispunkta sem þér senduð ríkisskattstjóra í maí s.l. og jafnframt er óskað eftir formlegu svari ríkisskattstjóra við því hvernig haga beri leiðréttingu á innskatti, sem skógarbóndi hefur fengið, ef notkun er breytt. Einnig er óskað eftir því að eyðublaði ríkisskattstjóra, rsk 10.30, verði breytt til samræmis við tillögur yðar sem sendar voru ríkisskattstjóra með tölvupósti 13. október s.l.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila er fjallað í 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Í meginatriðum má skipta skráningu skv. reglugerð nr. 515/1996 í tvennt þ.e. almenna skráningu sem er skyldubundin og skráningu gegn tryggingu sem byggir á heimild. Ákvæðin um almenna skráningu byggja á almennum sjónarmiðum virðisaukaskattslaga um virðisaukaskattsskylda starfsemi sem skilar tekjum og hagnaði innan skamms tíma. Ákvæðin um skráningu gegn tryggingu gera hins vegar ráð fyrir því að heimila megi skráningu í tilvikum þar sem almenn skilyrði til skráningar eru ekki fyrir hendi enda sé lögð fram trygging fyrir virðisaukaskatti. Almenna reglan um form tryggingar er skilyrðislaus sjálfsskuldarábyrgð banka en frá þeirri reglu er að finna frávik í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996 varðandi nytjaskógrækt þar sem segir að skattstjóri geti fallist á tryggingu í öðru formi ef aðili hefur með höndum nytjaskógrækt, enda sé tilgangur skógræktarinnar að framleiða og selja afurðir á síðari rekstrarárum. Í skattframkvæmd hefur verið talin nægileg trygging í þessu sambandi að nytjaskógræktaraðilar undirriti og þinglýsi yfirlýsingu þess efnis að þeir endurgreiði ríkissjóði þann virðisaukaskatt, framreiknaðan samkvæmt byggingarvísitölu, sem fengist hefur endurgreiddur vegna nytjaskógræktar verði landið tekið til annarran nota eða afhent eða selt öðrum aðila til nota við starfsemi sem eigi er virðisaukaskattsskyld eða án þess að þar til bær nýr eigandi yfirtaki kvöð um leiðréttingu innskatts. Orðalag yfirlýsingarinnar markast af orðalagi 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996; „Trygging skal á hverjum tíma nægja til endurheimtu á virðisaukaskatti eftir að hann hefur verið framreiknaður samkvæmt byggingarvísitölu.“ Tryggingum er ætlað að tryggja greiðslu á virðisaukaskatti skv. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996.

Hætti nytjaskógræktarbóndi starfsemi reynir á ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996 en þar segir að tilkynni aðili sig út af skrá eða er tekinn af skrá á grundvelli úrskurðar skattstjóra skuli telja vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi lýkur, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988. Ennfremur segir í 2. mgr. 9. gr. sömu reglugerðar að verði við lok starfsemi breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna varanlegra rekstrarfjármuna skuli leiðrétta innskatt í samræmi við IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Um leiðréttinguna segir eftirfarandi í 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993:

„Skattskyldur aðili skal leiðrétta (bakfæra) innskatt vegna skattskyldrar starfsemi sinnar verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna öflunar eftirtalinna varanlegra rekstrarfjármuna:
1. Véla, tækja, áhalda, innréttinga og annarra lausafjármuna sem rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, enda nemi kaupverð (stofnverð) einstakrar eignar eða eignasamstæðu a.m.k. 109.500 kr.a) (án virðisaukaskatts) eftir að það hefur verið framreiknað samkvæmt byggingarvísitölu.
2. Fasteigna. Leiðréttingarskyldan tekur til innskatts af efni, vinnu, tækjanotkun o.fl. vegna nýbyggingar, endurbyggingar og endurbóta, svo og vegna viðgerða og viðhalds, enda sé samtals verðmæti þessara framkvæmda a.m.k. 500.000 kr.b) (án virðisaukaskatts) eftir að það hefur verið framreiknað samkvæmt byggingarvísitölu.
Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu 1. janúar ár hvert taka breytingu samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
Við framreikning fjárhæða skv. 1. mgr. skal miða við byggingarvísitölu þess mánaðar þegar rekstrarfjármuna skv. 1. og 2. tölul. er aflað og byggingarvísitölu þess mánaðar þegar leiðrétting innskatts á sér stað.“
a) Fjárhæðin breytist 1. jan. ár hvert í samræmi við skattvísitölu (skattvísitala var afnumin 1995). Fjárhæðin er nú 113.700 kr.
b) Fjárhæðin breytist 1. jan. ár hvert í samræmi við skattvísitölu (skattvísitala var afnumin 1995). Fjárhæðin er nú 519.600 kr.

Í 1. mgr. 13. gr. sömu reglugerðar er rakið hvað teljist breytingar á forsendum í þessu sambandi og þar segir m.a. að það teljist breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts þegar skattaðili naut fulls frádráttarréttar eða frádráttar að hluta þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber engin frádráttarréttur eða minni frádráttarréttur. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. að leiðréttingarskylda falli niður við tilgreindar aðstæður m.a. þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna telst til skattskyldrar veltu skattaðila skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988. Í 14. gr. reglugerðarinnar er að finna reglur um það hvernig upphæð leiðréttingarfjárhæðar er reiknuð út. Þar segir jafnframt að leiðréttingarskyldan vegna öflunar lausafjármuna vari í 5 ár talið frá og með þeim mánuði þegar eignanna var aflað. Vegna þeirra framkvæmda á fasteignum sem taldar eru upp í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993 varir leiðréttingarskyldan í tíu ár talið frá þeim mánuði þegar framkvæmd fór fram.

Með vísan til framangreindra laga- og reglugerðarákvæða er ljóst að nytjaskógræktarbónda sem hættir nytjaskógrækt, og tilkynnir sig af þeim sökum út af virðisaukaskattsskrá eða er tekinn af grunnskrá á grundvelli úrskurðar skattstjóra, ber að telja til skattskyldrar veltu vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni. Miða ber skattverð við almennt gangverð á þeim tíma þegar starfsemi er hætt. Innskatt vegna framkvæmda á fasteignum, sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993, ber hins vegar að leiðrétta (bakfæra) í samræmi við ákvæði 14. gr. sömu reglugerðar, ef fasteign tekin til annarra nota þar sem ekki heimilast innskattsfrádráttur eða minni innskattsfrádráttur. Leiðréttingarskyldan varir í 10 ár, talið frá og með þeim mánuði þegar framkvæmd fór fram.

Varðandi tillögur að breytingum á eyðublaði ríkisskattstjóra rsk 10.30 (Yfirlýsing vegna nytjaskógræktar sbr. 2. ml. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996 um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.) skal tekið fram að ríkisskattstjóri hefur þær tillögur til skoðunar.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Sigurjón Högnason

Guðrún Þorleifsdóttir