Dagsetning Tilvísun
11. okt. 1990 142/90
Virðisaukaskattur – O.
Með bréfi yðar, dags. 20. júní 1990, óskið þér álits ríkisskattstjóra á því hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af starfsemi fyrirtækis yðar, O.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum felst starfsemi fyrirtækisins í sölu meðlimakortanna D og C. Handhafar ofangreindra korta geta keypt vöru eða þjónustu fyrir tvo hjá fyrirtækjum, sem eru samningsbundin O, á verði fyrir einn. Þannig greiðir handhafi D, sem tekur með sér gest á veitingahús, aðeins dýrari máltíðina en fær hina ókeypis. Á sama hátt getur handhafi C keypt þjónustu heilsuræktarstofa, hárgreiðslustofa o.fl. fyrir tvo á verði fyrir einn. Korthafi getur aðeins notið þessara kjara einu sinni á ári hjá sama fyrirtæki. Auk kortanna fær korthafi upplýsingarit (G eða N) um fyrirtæki sem eru þátttakendur í þessu kerfi. Um er að ræða alþjóðlegt kerfi og kortin gilda bæði hér á landi og erlendis.
Meðal gagna sem fylgdu bréfi yðar er staðlað form fyrir samninga O við veitingahús um D kerfið. Þar kemur fram að samningsaðilar ábyrgist að ekki séu neinar fjárhagslegar skuldbindingar milli þeirra.
Að áliti ríkisskattstjóra verður ekki séð að neitt undanþáguskvæði laga um virðisaukaskatt eigi við um starfsemi fyrirtækis yðar, og ekki er annað komið fram en að hún sé í atvinnuskyni. Fyrirtækinu ber samkvæmt því að innheimta og skila virðisaukaskatti af kortagjöldum og öðrum greiðslum sem viðskiptamenn eru krafðir um.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.