Dagsetning                Tilvísun
29.jan. 1990                           11/90

 

Virðisaukaskattur – olía til húshitunar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. janúar sl., þar sem óskað er upplýsinga um þau gögn sem seljanda olíu til húshitunar beri að varðveita til sönnunar því að sala sé undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu skv. 11. tölul. l. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

1. Aðeins er heimilt að telja undanþegna skattskyldri veltu sölu þeirrar olíu sem olíufélag afgreiðir á tank við íbúðarhús eða annan þann stað sem starfsmönnum þess er kunnugt um að sé ætlaður fyrir olíu til hitunar húsa eða laugarvatns. Í þessu sambandi skal tekið fram að sala olíu til fjarvarmaveitna er ekki undanþegin þegar veitan hefur sjálf með höndum skattskyldan rekstur. Undanþágan á hins vegar við þegar um er að ræða samrekstur á hitunarkerfi, þ.e. veitu sem skiptir kostnaði milli eigenda án þess að um sjálfstæðan rekstur sé að ræða.

2. Seljanda olíu ber að tilgreina á sölureikningi sínum hvar olía er afhent.

3. Kaupandi skal rita undir yfirlýsingu á sölureikningi þess efnis að olía sé eingöngu keypt til hitunar húsa og laugarvatns.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.