Dagsetning                       Tilvísun
22. janúar 1997                            782/97

 

Virðisaukaskattur – orlofshlutdeild – Time share.

Vísað er til fundar með lögmanni og endurskoðenda yðar, dags. 5. desember sl., þar sem óskað var álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu á orlofshlutdeild hér á landi.

Á framangreindum fundi með yður lögðuð þér fram ýmis gögn varðandi starfsemina. Af umræddum gögnum og skýringum yðar má ráða að starfsemin sé fólgin í sölu á orlofshlutdeild þar sem kaupendur fá hlutdeild í afnotarétti fasteignar í eina viku, eða meira á hverju almanaksári gegn greiðslu ákveðins heildarverðs. Eigendur hlutdeildar nýta síðan fasteignina (íbúðina) til dvalar.

Samgönguráðuneytið hefur talið, sbr. bréf dags. 22. nóvember sl. að félagið þurfi ferðaskrifstofuleyfi til starfseminnar á grundvelli c-liðar 9. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála.

Ríkisskattstjóri telur fram komnar upplýsingar um starfsemina ekki nægjanlega skýrar eða ítarlegar til þess að gefa ákveðið svar um rétta skattmeðferð vegna hennar. Ekki þykir ljóst hvort félagið á afnotaréttinn eða hefur einungis milligöngu um söluna og tekur eftirfarandi álit mið af því.

Ef starfsemi félagsins felst í milligöngu um ferðaþjónustu er hún undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Það telst milliganga um ferðaþjónustu að annast umboðssölu á farmiðum með fólksflutningafarartækjum og að útvega gistingu hjá þriðja aðila. Þannig telst það vera milliganga um ferðaþjónustu að koma á viðskiptum milli seljanda orlofshlutdeildar og kaupanda ef kaupandi öðlast ekki eignarrétt að viðkomandi íbúð. Á grundvelli þessa bæri félaginu ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem það áskildi sér við söluna, þ.m.t. umsjónargjaldi sem greitt væri árlega vegna fastakostnaðar við rekstur íbúðarinnar, s.s. viðgerða, viðhalds og þrifa.

Hins vegar telst bein sala á afnotarétti að íbúð með eða án afsals ekki vera milliganga um ferðaþjónustu. Af þessu leiðir að félaginu ber að innheimta virðisaukaskatt af sölu á orlofs-hlutdeild þegar um er að ræða sölu á afnotarétti án þinglýsts afsals enda sé það eigandi afnotaréttarins. Í þessu sambandi er sölunni jafnað til virðisaukaskattsskyldrar útleigu á hótel- og gistiherbergjum og annarrar gistiþjónustu, þ.e. þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Öðlist kaupandi því eingöngu tímabundinn afnotarétt af orlofshlutdeildaríbúð við eingreiðslu er um að ræða sölu á óefnislegum verðmætum sem er virðisaukaskattsskyld á grundvelli 2. mgr. og 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. sömu laga þar sem kaupandinn á í vændum þjónustu í vissan árafjölda en greiðir heildargjaldið fyrirfram. Greiðsla fyrir svokallaðan umsjónarkostnað, þ.e. viðhald, þrif o.fl., teldist því jafnframt vera greiðsla fyrir afhendingu á virðisaukaskattsskyldri þjónustu.

Á hinn bóginn skal tekið fram að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af sölu á orlofshlutdeild þegar kaupandi fær afsal fyrir sinni hlutdeild í viðkomandi íbúð, t.d. ef kaupandi öðlast afnotarétt að íbúð í eina viku á ári enda gefi félagið út afsal að 1/52 af íbúðinni. Í þessu tilviki er samningur um orlofshlutdeild ótímabundinn og er þá jafnað við sölu á óefnislegum verðmætum sem er undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 1. mgr. 2. gr. laga 50/1988 þar sem fasteignir teljast ekki til vara í skilningi laganna.

Með vísan til þess sem að framan greinir og fyrirliggjandi upplýsinga um starfsemina virðist sala á umræddri orlofshlutdeild vera í formi milligöngu og ef svo er telst hún sambærileg þjónustu ferðaskrifstofu sem er undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

 

Afrit sent:        Þ

E