Dagsetning Tilvísun
21. janúar 1997 781/97
Virðisaukaskattur – posagjald – skattverð.
Vísað er til erindis yðar dags. 18. desember og fundar um efni þess 19. desember sl. Í erindinu er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort tilteknar tekjur fyrirtækisins G teljist vera virðisaukaskattsskyld velta. Jafnframt er varpað fram spurningu um meðferð tekjufærslu af sama uppruna milli deilda innan fyrirtækisins.
Aðstæðum þeim sem um er spurt í bréfinu er nánar lýst þannig:
„Í upphafi ársins 1994 samþykkti nefnd á vegum bankakerfisins að lækka mánaðarleigu söluaðila fyrir posa um 500 kr. auk virðisaukaskatts, úr 2.250 kr. í 1.750 kr. án virðisaukaskatts. Leigutekjur G. lækkuðu því verulega eða um 22%.
G sér um samrekstur banka, sparisjóða og kortafyrirtækja á svokölluðu R. R sér um rekstur hugbúnaðar og tölvukerfa varðandi posana. Kerfið heldur utan um allar færslur vegna kortaviðskipta, þ.e. debet- og kreditkorta. Kostnaði við þennan samrekstur er skipt á aðilana í hlutfalli við færslufjölda hvers um sig.
Á árinu 1996 náðist samkomulag G og annarra aðila að R um að félaginu yrði bætt að hluta til það tekjutap sem það varð fyrir þegar leigutekjur posa voru lækkaðar um 500 kr. G var heimilað að færa til gjalda á samrekstur R 200 kr. á mánuði á hvern posa sem er í leigu. Þessum kostnaði er síðan skipt á aðilana með öðrum kostnaði við R í hlutfalli við færslufjölda hvers og eins.“
Spurt er hvort umræddar greiðslur teljist virðisaukaskattsskyldar tekjur eða kostnaðarútdeiling og ef hið fyrrnefnda gildir hvort hlutdeild G sjálfrar í rekstrarkostnaði R myndi þá rétt til innskattsfrádráttar vegna umræddra tekna.
Samkvæmt 3. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 hvílir skattskyldan á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu eða m.ö.o. þeim sem hafa ágóða að markmiði. Samkvæmt 7. gr. laganna miðast skattverð við heildarendurgjald eða heildarandvirði þess selda án virðisaukaskatts.
Ríkisskattstjóri telur ljóst af þeim upplýsingum sem tilgreindar eru í bréfi yðar að greiðslur rekstraraðila R vegna útleigu á posum eru hluti af eðlilegu heildarleigugjaldi og því virðisaukaskattsskyldar. Þessum greiðslum má því jafna til leigugjalds fyrir posa enda augljóst hagsmunamál fyrir rekstraraðilana að umræddir posar séu notaðir þegar greitt er fyrir vöru eða þjónustu með greiðslukortum útgefnum af þeim. G. ber því að gefa út reikninga með virðisaukaskatti á samrekstraraðila R vegna umræddra greiðslna.
Að mati ríkisskattstjóra skiptir ekki máli í þessu sambandi þó að kostnaðarútdeilingarkerfi R sé notað til þess að ákveða greiðslu hvers og eins aðila vegna umræddra greiðslna. Reiknuð þátttaka G vegna 38% hlutdeildar í rekstrarkostnaði R telst ekki til til tekna í þessu sambandi og skal því ekki reikna né skila útskatti af þeirri fjárhæð, enda einungis um að ræða aðferð til þess að ákveða greiðslur hinna aðilanna.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón H. Steingrímsson