Dagsetning                       Tilvísun
3. febrúar 1995                            664/95

 

Virðisaukaskattur – póstþjónusta.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. janúar sl., þar sem andmælt er túlkun ríkisskattstjóra á undanþáguákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988. Í bréfinu er m.a. stuðst við sambærilegt ákvæði dönsku laganna sem breytt var í júní á síðasta ári.

Þegar íslensku lögin voru samin voru ákvæði dönsku virðisaukaskattslaganna höfð til hliðsjónar og því hefur verið stuðst við danskar framkvæmdarreglur við túlkun íslensku laganna í þeim tilvikum sem laga- og reglugerðarákvæði taka ekki af tvímæli. Með breytingunni sem gerð var á dönsku lögunum í júní 1994 var undanþága gagnvart póstþjónustu rýmkuð verulega, þannig að dreifing á merktum bréfasendingum, blöðum og tímaritum varð undanþegin skattskyldu en fram að þessari breytingu var umrædd þjónusta skattskyld.

Ekki verður á það fallist að umrædd breyting á dönsku virðisaukaskattslögunum leiði til þess að túlkun á samsvarandi ákvæði íslensku laganna breytist, enda hefur því ákvæði ekki verið breytt á samsvarandi hátt, þ.e. með lagabreytingu.

Áréttuð skal sú túlkun á ákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga sem kemur fram í bréfi til Póst- og símamálastofnunar, dags. 21. september 1994, þ.e. að með póstþjónustu sé átt við opinbera póstþjónustu sem er einkaleyfisbundin, sbr. II. kafla póstlaga nr. 33/1986. Óyggjandi er að utan skattskyldunnar fellur ávallt sú þjónusta sem veitt er í krafti opinbers valds, þ.e. þjónusta sem aðrir aðilar en viðkomandi stofnun hafa ekki lagalegan rétt á að veita. Ríkisskattstjóri telur hins vegar að dreifing á opnum ómerktum eða merktum sendingum, þ.m.t. dreifing á blöðum og tímaritum sé ekki undanþegin virðisaukaskatti skv. fyrrnefndu ákvæði, enda falli hún að því er virðist ekki undir 4. gr. póstlaga nr. 33/1986.

Þar sem Póst- og símamálastofnunin er opinber stofnun þá ber henni að innheimta virðisaukaskatt af sölu á þeirri þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin skattskyldu að því leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Við mat á því hvort sala á þjónustu sé í samkeppni við atvinnufyrirtæki ber að líta til þess hvort aðrir en hin opinbera stofnun veiti sambærilega þjónustu.

Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að innheimta ber virðisaukaskatt af allri þjónustu sem stofnunin selur eða afhendir sem ekki er sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, eða undanþegin sem þjónusta opinberrar stofnunar á sviði þar sem samkeppni við atvinnufyrirtæki er ekki til staðar, sbr. 3. gr. laganna.

Ríkisskattstjóri telur staðfest að Póst- og símamálastofnun á nú í samkeppni við atvinnufyrirtæki á því sviði póstþjónustu sem fellur utan einkaréttar stofnunarinnar samkvæmt 4. gr. póstlaga. Þar með hefur stofnast skattskylda skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga. Það skal tekið fram í þessu sambandi að skattskylda verður ríkjandi framvegis óháð því hvort núverandi samkeppnisfyrirtæki starfa áfram eða ekki enda sé ljóst að atvinnufyrirtæki geti auðveldlega boðið sambærilega þjónustu.

Það skal að lokum ítrekað að fyrri álit ríkisskattstjóra um sama efni, nr. 643 dags. 21. september 1994 og nr. 628 6. maí 1994 standa óbreytt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Jón H. Steingrímsson

 

Afrit:

Póst- og símamálastofnun
Skattstofan í Reykjavík
Fjármálaráðuneyti