Dagsetning                       Tilvísun
11. júní 1991                             281/91

 

Virðisaukaskattur – prentun rita á erlendu tungumáli.

Fjármálaráðuneytið hefur sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi yðar, dags. 16. febrúar 1990, varðandi virðisaukaskatt á prentað efni til nota fyrir útlendinga, erlendis eða hér á landi.

Í bréfi yðar kemur fram það álit fyrirtækisins að samkeppnisstaða íslensks prentiðnaðar hafi breyst til hins verra við tilkomu virðisaukaskatts hvað varðar prentun rita á erlendum tungumálum. Er í þessu sambandi vísað til þess að slík prentun hafi verið undanþegin söluskatti en sé nú virðisaukaskattsskyld og fái óskattskyldir aðilar þann skatt ekki endurgreiddan. Láti þeir aðilar prenta erlendis til dreifingar í öðrum löndum sé um að ræða útflutning í því landi þar sem prentun fer fram og verði framleiðslan skattlaus í því tilviki.

Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt söluskattslögum var prentun bæklinga og rita, sem dreift var erlendis til vöru- eða landkynningar, undanþegin söluskatti. Í lögum um virðisaukaskatt er ekki að finna sérstakt undanþáguákvæði er tekur til prentunar á vöru- og landkynningarbæklingum. Samkvæmt almennum ákvæðum laganna ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af allri seldri prentþjónustu til innlendra aðila, en 3. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna leiðir til þess að sala á prentþjónustu til erlendra aðila er undanþegin skattskyldri veltu þegar viðkomandi prentsmiðja flytur prentvarninginn út að vinnu lokinni. Að áliti ríkisskattstjóra verða ákvæði laganna um undanþágur frá skattskyldri veltu vegna útflutnings vöru og þjónustu ekki túlkuð svo rúmt að þau taki til þess þegar kaupandi prentþjónustu flytur hið prentaða efni sjálfur úr andi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.