Dagsetning Tilvísun
14. maí 1993 475/1993
Varðandi einkanot virðisaukaskattsbifreiða.
Vísað er til bréfs yðar til fjármálaráðuneytis, dags. 24. mars 1993, þar sem þér farið fram á undanþágu vegna heimaaksturs tæknimanna á verkstæðisbifreiðum R. Fjármálaráðuneytið framsendi bréfið til afgreiðslu ríkisskattstjóra þann 3. maí 1993.
Í bréfi yðar kemur fram, að tæknimenn fyrirtækisins standi óbeinar vaktir 24 tíma sólarhrings, þar sem þjónusta við fiskveiðiflotann geti aldrei verið takmörkuð við skrifstofutíma. Í verkstæðisbifreiðum sé varahlutalager fyrir fiskileitar- og siglingatæki auk verkfæra tæknimanna, og þér teljið að ef umræddar bifreiðar verði geymdar á athafnasvæði fyrirtækisins muni innbrotshætta aukast stórlega.
Til svars bréfs yðar skal tekið fram að skv. 9. gr. innskattsreglugerðar nr. 81/1991 er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hvers konar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun bifreiðar á rauðhvítum skráningarmerkjum að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun (þ.e. vegna kaupa) bifreiðar verður bakfærður (leiðréttur).
Til einkanota sbr. 9. gr. innskattsreglugerðar telst m.a. akstur á milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur á milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns. Þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfstöð annars staðar.
Enda þótt notendur bifreiða á rauðhvítum skráningarmerkjum geti sýnt fram á að þeir hafi verið á bakvakt þegar bifreið stóð við heimahús er slík ástæða ekki fullnægjandi og myndi það valda því að allur innskattur af öflun bifreiðar yrði bakfærður.
Ríkisskattstjóri hefur enga lagaheimild til að veita yður undanþágu frá framangreindum reglum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.